Róbert fagnar játningu Kristjóns

Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvotech, fagnar játningu Kristjóns Kormáks …
Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvotech, fagnar játningu Kristjóns Kormáks á innbroti á skrifstofu Mannlífs. Ljósmynd/Aðsend

Róbert Wessman segist ekki getað látið hjá líða að bera af sér alvarlegar sakir og bornar hafi verið á hann í kjölfar innbrots á skrifstofu Mannlífs.

Reynir Traustason ritstjóri miðilsins hefur áður látið að því liggja að Róbert hafi átt þátt í brotinu en Kristjón Kormákur Guðjónsson játaði á sig innbrotið í sérstökum spjallþætti Mannlífs á föstudaginn. Þá sagði Kristjón Kormákur frá samskiptum sínum og Róberts í kjölfar innbrotsins í sérstökum þætti á vef Mannlífs.

Inntur eftir viðbrögðum við viðtalinu segist Róbert Wessman í skriflegu svari til mbl.is að hann hafi enga aðild átt að innbrotinu líkt og Kristjón Kormákur staðfesti. Að sögn Róberts hringdi Kristjón í Róbert og sagði vef Mannlífs liggja niðri – kemur fram í viðtali við Kristjón að það hafi hann gert eftir innbrotið. Hafði Róbert lítið um það að segja en hringdi hins vegar í Kristjón eftir að fjölmiðlar fjölluðu um innbrotið og tjáði honum að hann hefði framið lögbrot, hefði hann staðið að innbrotinu. 

Brugðið yfir játningu Kristjóns

„Innbrotið á ritstjórnarskrifstofu Mannlífs í janúar var alvarlegt lögbrot enda árásir á fjölmiðla aðför að lýðræðinu. Ég fordæmi slík brot og fagna því að nú sé kominn botn í það mál. [... ] Mér var ekki kunnugt um hver stóð að því hvorki í aðdraganda þess né eftir það. Mér eins og fólki flestu var brugðið að heyra sögu Kristjóns Kormáks Guðjónssonar, þar sem hann játar að hafa framið þennan verknað,“ segir í yfirlýsingu Róberts.

Róbert lýsir því að um árabil hafi lögmannsstofan Lögsaga, í gegnum Ólaf Kristinsson, unnið ýmis verkefni fyrir hann en á meðal þeirra séu lagaleg ráðgjöf og greining er lúta að fjölmiðlum. Við þá vinnu hafi Ólafur stundum ráðið inn ráðgjafa í tilfallandi verkefni. 

Ólafur hafi talið að Kristjón Kormákur gæti gagnast við þá vinnu þar sem hann hefur stýrt mörgum af helstu fjölmiðlum landsins með góðum árangri, en Ólafur hafi gert 6 mánaða samning við Kristjón Kormák sem rann út í nóvember samkvæmt bestu vitund Róberts.

Segist hafa hafnað beiðni Kristjóns um rekstur fjölmiðils

„Í fyrrasumar vildi Kristjón Kormákur að ég myndi fjármagna nýjan fréttamiðil sem hann var með í burðarliðnum. Ég sagði honum það skýrt að ég hefði engan áhuga á því að reka fjölmiðla og hafnaði því beiðni hans.“

Daginn eftir innbrotið á skrifstofu Mannlífs hafi Kristjón Kormákur haft samband við Róbert í gegnum síma til þess að láta hann vita að vefur Mannlífs lægi niðri. 

„Hafði ég lítið um það að segja. Síðar var greint frá því í fjölmiðlum að brotist hefði verið inn á ritstjórnarskrifstofu Mannlífs og sú kjaftasaga gekk að Kristjón Kormákur gæti verið að verki. Ég hafði því samband við hann og sagði við hann að ef hann hefði farið inn á ritstjórnarskrifstofu Mannlífs þá væri það lögbrot. Lengra var samtalið ekki,“ segir í yfirlýsingunni og enn fremur:

„Kristjón Kormákur játaði aldrei innbrot við mig. Hefði hann gert það hefði ég að sjálfsögðu tilkynnt það til lögreglu. Það var ekki fyrr en nú á föstudag sem ég eins og annað fólk heyrði sögu hans.

Það var augljóst á viðtali Reynis Traustasonar við Kristjón Kormák á föstudag að þar gekk ritstjórinn æði langt í að reyna að bendla mig við þetta innbrot og lætur að því liggja að ég hafi á einhvern hátt verið drifkrafturinn í því. Það er algerlega fráleitt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina