Mannæturunninn sem veitti innblástur

Þegar Þorgerður Agla Magnúsdóttir og María Rán Guðjónsdóttir ákváðu að stofna bókaforlag fyrir nokkrum árum varð auðvitað að velja á það nafn.

„Það er oft þannig með góðar hugmyndir að þær koma fljótt upp og svo fer maður einhverja svakalega fjallabaksleið til þess að koma aftur þangað,“ segir Þorgerður Agla. Lendingin varð að forlagið skyldi heita Angústúra.

Angústúra er nafnið á mannæturunna í Halastjörnunni eftir Tove Jansson sem klófestir Snorkstelpuna. „Þetta var bara orð sem okkur fannst flott. Við vildum ekki vera „bóka“-eitthvað. Við fórum bara í hring og þetta varð lendingin,“ segir María Rán.

„Þetta er líka runni í Suður-Ameríku, ekki mannæturunni en einhvers konar tré, og það eru borgir í Suður-Ameríku sem heita Angústúra.“ María hefur einmitt þýtt verk úr spænsku.

„Þetta er þess vegna svolítið svona framandlegt,“ bætir Þorgerður Agla við. Hugsunin hjá þeim hafi verið að velta fyrir sér hvað vanti í flóruna. „Okkur fannst vanta eitthvað sem kæmi kannski lengra að. Þá einhvern veginn passaði þetta líka svo vel við.“

Þýðingar og „feel-good“

María Rán segir að það hafi helst verið tvennt sem þeim hafi þótt vanta í flóru bókmennta á Íslandi.

„Það var að gefa út þýðingar. Við höfum báðar haft mikinn áhuga á þýðingum, það er að segja bókmenntum frá öðrum löndum alveg alla tíð. Okkur fannst vanta eitthvað frá fjarlægari löndum án þess að það væri eitthvað framandi, heldur bara að kynnast heiminum betur. Fá aðrar sögur. Af því það er verið að skrifa bókmenntir auðvitað út um allan heim og margar hverjar stórmerkilegar bækur.“

Þær stöllur hafa meðal annars gefið út merk rit á borð við Allt sundrast eftir Chinua Achebe og nú síðast Tsjernobyl-bænina eftir Svetlönu Aleksíevítsj. Þýðandi þeirrar síðarnefndu, Gunnar Þorri Pétursson, hlaut einmitt íslensku þýðingarverðlaunin fyrir verkið.

„Hins vegar var Agla svolítið búin að stúdera markaðinn eða hafði tekið eftir því að það vantaði svolítið svona léttar „feel-good“-bókmenntir,“ segir hún og nefnir sem dæmi bækur Jenny Colgan sem slegið hafa í gegn hér á landi.

Rætt var við Þorgerði Öglu og Maríu Rán í Dagmálum, frétta- og dægurmálaþætti Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert