Þyrlan kölluð út vegna ferðamanna á Vatnajökli

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna ferðamanna á Vatnajökli.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna ferðamanna á Vatnajökli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út vegna tveggja erlendra ferðamanna sem eru fastir á Vatnajökli.

Á fjórða tímanum í dag virkjuðu ferðamennirnir neyðarsendi sem barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Var staðsetning hans við Sylgju í vestanverðum jöklinum. 

Ekki var talið fýsilegt að nálgast fólkið landleiðina vegna færðar sem var afar slæm og því var ákveðið að senda þyrlu.

Skyggni og skýjahæð hafa aftur á móti gert þyrlusveitinni erfitt fyrir og hafa því björgunarsveitir sömuleiðis verið kallaðar út á jeppum og vélsleðum, að því er fram kemur í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.

mbl.is