„Við verðum að byggja nýtt Breiðholt“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins. Hún segir að uppsöfnuð …
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins. Hún segir að uppsöfnuð þörf á húsnæðismarkaði jafngildi því að byggja þurfi nýtt Breiðholt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varlega áætlað er uppsafnaður íbúðaskortur á landinu um 15 þúsund íbúðir og til að vinna á þessum skorti þarf að ráðast í stórtæka uppbyggingu strax á þessu ári, bæði með uppbyggingu félagslegra íbúða og einnig annarra ódýrra eigna. Þetta sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, í sérstakri umræðu um framtíð félagslega húsnæðiskerfisins á Alþingi í dag. Tókust þingmenn meðal annars á um ábyrgð Reykjavíkurborgar í skortinum og hvort ábyrgðin væri annarra sveitarfélaga.

Vilja 500 íbúðir aukalega á ári í almenna íbúðakerfið

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, var upphafsmaður umræðunnar og sagði hann að húsnæði væri ekki eins og hefðbundin neysluvara sem ætti að lúta lögmálum markaðarins. Húsnæði væri grundvallar mannréttindi og að horfa þyrfti til langtíma en ekki slökkva elda eins og hann sagði ríkisstjórnina hafa gert síðasta kjörtímabil. Sagði hann aðstæður hafa versnað á húsnæðismarkaðinum hér á landi síðustu tvo áratugina og vísaði í tölur frá Hagstofunni um að þeir sem byggju við húsnæðisskort hefðu verið um 25 þúsund árið 2005, en árið 2018 væri sú tala komin upp í 50 þúsund.

Logi sagði jafnframt að fyrirséð væri að vandi margra á húsnæðismarkaði myndi aukast með hækkandi vöxtum og hækkandi húsnæðisverði. Það þýddi jafnframt að erfiðara yrði fyrir fólk að komast inn á markaðinn á næstunni. Kallaði hann eftir grundvallarstefnubreytingu í húsnæðismálum og sagði að stórauka þyrfti framlög til að byggja hagkvæmt húsnæði og draga þannig úr sveiflum á markaðinum. Rifjaði hann upp þingsályktunartillögu sem Samfylkingin hefði sett fram um að ríkið ætti að efla almenna íbúðakerfið með uppbyggingu á 500 leigu- og búsetuíbúðum á ári umfram það sem þegar hefur verið ákveðið. „Önnur fjögurra ára stöðnun í húsnæðismálum er ekki í boði,“ sagði Logi í lok ræðu sinnar.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segir almenna íbúðakerfið hafa gefist vel

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra tók næst til máls og fór yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar á þessu og síðasta kjörtímabili. Þannig hefði t.d. alla tíð skort yfirsýn um framboð lóða og stöðu í hverju sveitarfélagi. Það hafi nú breyst og skila sveitarfélög nú stafrænum húsnæðisáætlunum þar sem upplýsingar séu samræmdar um mat sveitarfélaga á íbúðaþörf, hvert lóðaframboðið sé og áætlun um uppbyggingu á komandi árum. Þá væri hægt að sjá upplýsingar næstum í rauntíma um byggingarstig íbúða á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Nefndi Sigurður að á síðasta kjörtímabili hefði verið komið á hlutdeildarlánum og hefðu samtals 600 umsóknir borist í það kerfi og 300 lán verið afreidd. Þá hefði 18 milljörðum verið úthlutað vegna almennra húsnæðisfélaga frá árinu 2016 og að það hefði skilað sér í 3.000 íbúðum. Þá væri þriðjungur núverandi leiguíbúða nú á vegum hins opinbera. Sagðist hann reyndar vilja hækka það hlutfall enn frekar í núverandi ástandi. Sagði hann almenna íbúðakerfið hafa gefist vel og almenna sátt vera um það.

„Sveitarfélögin mega ekki vera dragbítur

Aðrir þingmenn tóku svo til mála og virtust allir telja að byggja þyrfti meira og úthluta fleiri lóðum. Mismunandi var þó hvar þingmenn töldu ábyrgðina liggja.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, sagði meðal annars að það þyrfti að skilgreina ábyrgð sveitarfélaga þegar kæmi að uppbyggingu húsnæðis og félagslega kerfisins. „Sveitarfélögin mega ekki vera dragbítur í baráttunni við húsnæðisvandann,“ sagði hún og benti á að meðan þörfin væri nú um 4.000 íbúðir á ári þá væri meirihluti borgarstjórnar að úthluta rúmlega 1.000 íbúðum á þessu ári. Sagði hún ekki erfitt að sjá að þarna þyrfti að spýta í.

Ásthildur sagði heildarþörfina núna eins og fyrr segir vera um 15 þúsund íbúðir og að eðli málsins samkvæmt væri meirihluti þeirra á höfuðborgarsvæðinu. „Við verðum að byggja nýtt Breiðholt og ríkið verður að koma að þessari vinnu í samstarfi við sveitarfélögin,“ sagði hún. Beindi hún sjónum sínum einnig að Reykjavíkurborg og sagði meirihlutann þar hafa samþykkt að 1.280 íbúðir gætu farið í byggingu og bætti við að þar þyrfti að bæta sig.

Reykjavík standi sig vel í samanburði við önnur sveitarfélög

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, varði hins vegar húsnæðisstefnu borgarinnar og benti á að samkvæmt áætlunum HMS sem voru í gildi þangað til í lok síðasta árs hefði verið gert ráð fyrir að þörfin væri um 3.500 íbúðir árlega á landinu öllu. Sagði hann íbúa Reykjavíkur vera um þriðjung landsmanna, íbúa í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um þriðjung og svo utan höfuðborgarsvæðisins loka þriðjunginn. Þegar horft væri á fjölda íbúða sem lokið hefði verið að byggja á síðasta ári væri 48% þeirra í Reykjavík. Árið 2020 hefði hlutfallið verið 54% og árið 2019 44%.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sagði hann Reykjavíkurborg því vera síðasta sveitarfélagið sem ætti að gagnrýna vegna stöðunnar á fasteignamarkaðinum. Sagði hann núverandi áætlun borgarinnar vera að lágmarki 1.000 íbúðir og m.v. það væri borgin á pari við það sem fyrri áætlun HMS gerði ráð fyrir. Rétt væri hins vegar að bæta þyrfti í, en það væri út frá mjög nýlegum áætlunum. Lauk hann máli sínu á að segja að Reykjavíkurborg hefði sinnt rúmlega sínu í þessum málaflokki, auk þess að vera með um 48% af öllu félagslegu húsnæði í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert