Elsti varaþingmaðurinn braut blað í sögu þingsins

Wilhelm Wessman undirritaði drengskaparheit að stjórnarskránni í morgun á Alþingi.
Wilhelm Wessman undirritaði drengskaparheit að stjórnarskránni í morgun á Alþingi. Skjáskot/Vefur Alþingis

„Þetta bætir í reynslubankann,“ segir Wilhelm Wessman, varaþingmaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is.

Hann tók í dag sæti á Alþingi í fjarveru Ingu Sæland og er elsti varaþingmaðurinn sem tekið hefur sæti á Alþingi í fyrsta sinn, 79 ára og 159 daga gamall.

Wilhelm, sem unnið hefur sem hótelstjóri og í veitingageiranum áður, segir að sér lítist vel á hinn nýja vinnustað. Fyrsti dagurinn hafi í það minnsta gengið áfallalaust fyrir sig.

Hefur unnið með Gráa hernum

Wilhelm verður áttræður í október og segir spurður að hægt sé að bæta í hinn svokallaða reynslubanka eins lengi og maður lifir.

„Að mínu mati er það svo. Ég er búinn að reyna margt í lífinu og þetta er bara ein viðbótin,“ segir hann.

Wilhelm hefur unnið með Gráa hernum, bar­áttu­hópi eldra fólks um líf­eyr­is­mál, undanfarin ár og segir skerðingamál og kjör aldraðra sér hugleikin. Að þeim málum muni hann berjast fyrir þá daga sem hann situr á Alþingi.

Hvernig er manni á þínum aldri tekið af öðrum þingmönnum?

„Ég sit hér í góðum hópi og sé engan í fýlu. Mér er vel tekið hérna.“

mbl.is