Skoða hvernig opna megi fjöldahjálparstöð

Stöðuhópur vinnur nú að því að skilgreina nánar þær bjargir …
Stöðuhópur vinnur nú að því að skilgreina nánar þær bjargir sem þurfa að vera til staðar komi til þess að opna þurfi fjöldahjálparstöð hér á landi. AFP/Peter Lazar

Alls hafa 104 einstaklingar með úkraínskt ríkisfang sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá því að innrás Rússa hófst fyrir tveimur vikum, eða þann 24. febrúar. Hópurinn samanstendur af 50 konum, 30 börnum og 24 körlum.

Í síðustu viku virkjaði Evrópusambandið ákvæði sem heimilar flóttamönnum frá Úkraínu að koma óhindrað til ESB ríkjanna og fá dvalarleyfi til þriggja ára. Dómsmálaráðherra hefur virkjað 44. gr. útlendingalaga sem er að einhverju leiti sambærilegt því ákvæði. Nánari útfærsla á þeirri framkvæmd liggur ekki fyrir.

Þetta kemur fram í þriðju stöðuskýrslu landamærasviðs ríkislögreglustjóra vegna stríðsátaka í Úkraínu og komu einstaklinga til Íslands sem sækja um alþjólega vernd.

Skoða að færa viðbragðsáætlun á hættustig

Álag á móttökukerfið vegna komu einstaklinganna er komið að þolmörkum og hefur viðbragðsáætlun vegna yfirálags á landamærum verið virkjuð. Áætlunin er nú á hættustigi.  

Stöðuhópur vinnur nú að því að skilgreina hvaða bjargir eru nauðsynlegar til að opna fjöldahjálparstöð auk þess sem unnið er að útfærslu á mögulegri uppsetningu á hjálpar- og skráningarmóttökustöð.

Tveir þriðju fá inn hjá vinum og ættingjum

Tveir af hverjum þremur hafa fengið húsaskjól hjá vinum og ættingjum sem eru búsettir á Íslandi en í þeim tilvikum þar sem það stendur ekki til boðar hefur Útlendingastofnun komið til aðstoðar.

Á tímabilinu 1. til 8. mars hafa að meðtaltali 8 einstaklingar með tengsl við Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Ef sú þróun heldur áfram má áætla að allt að 248 einstaklingar með tengsl við Úkraínu verði búnir að sækja um vernd hér í lok mánaðar.

Flugmiði frá Úkraínu á tíu þúsund krónur

Vegna framtaks Wizz Air kostar flugmiðinn frá Úkraínu til Íslands um 70 Evrur, eða því sem nemur um 10 þúsund krónum en flugfélagið hefur gefið um 100 þúsund flugmiða til flóttamanna.

Ríflega helmingur þeirra sem hafa óskað eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi vegna stríðsátakanna koma hingað með áætlunarflugi frá Varsjá og Búdapest en tíðni flugferða frá Póllandi þennan mánuð hefur verið 38 flug á viku að meðaltali og 8 í viku frá Ungverjalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert