„Ófremdarástand sem kemur niður á öllum“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Veðurfar og kórónuveirusmit hafa gert leigubifreiðastjórum erfitt fyrir að undanförnu eins og mörgum í þjónustustörfum. Á mestu álagstímum þegar umferðin þyngist hefur reynst erfitt að þjónusta og liðsinna öllum á sama tíma og þar kemur ýmislegt til.

„Veðrið og ófærðin í húsagötum hafa spilað inn í undanfarið. Þegar fólk kemst ekki af stað á eigin bílum þá er gjarnan fyrsta hugmyndin að hringja á leigubíl. Húsagöturnar hafa verið það þungfærar að ekki hafa allir leigubílar getað sinnt erfiðustu götunum, enda hafa sumar göturnar einungis verið færar fjórhjóladrifnum bílum. Auk þess skemmdust allnokkrir bílar, eða biluðu, í vatnsveðrinu sem var. Ofan á bætist að mjög margir bílstjórar hafa smitast af veirunni og margir eru enn frá vegna veirunnar. Þetta er ófremdarástand sem kemur niður á öllum,“ segir Daníel Orri Einarsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra.

Spurður um hvort erlendir ferðamenn hafi skapað tekjur fyrir bílstjóra í vetur segir Daníel það hafa verið sveiflukennt.

„Það hefur verið reitingur inn á milli. Síðasta sumar og í haust voru útlendingarnir að fara í Covid-próf og tóku margir leigubíl til að komast þangað. Janúarmánuður var hins vegar hálfgerð hörmung hjá okkur. Allan janúar var nánast ekkert að gera en í febrúar fór eitthvað af stað.“

Fleiri geta fengið en vilja

Fjölgað hefur í hópi leigubifreiðastjóra hérlendis á nýjan leik en sem kunnugt er skiluðu margir inn starfsleyfinu í samkomutakmörkunum sem fylgdu heimsfaraldrinum. Enn er þó pláss á markaðnum fyrir nýja bílstjóra.

Færð í húsagötum var víða erfið á dögunum.
Færð í húsagötum var víða erfið á dögunum. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Já það losnuðu fullt af leyfum. Samkvæmt nýjustu tölum sem ég er með eru 497 leyfi í nýtingu og innlögð leyfi voru 90. Í úthlutun í haust voru 56 leyfi en ekki voru sótt nema 28. Fleiri geta fengið en vilja þar sem 28 leyfi eru laus og fleiri leyfum verður líklega úthlutað í vor en Samgöngustofa gefur ekki upp hversu mörg verða í úthlutun fyrr en að henni kemur. Vinnan jókst þegar höftin voru afnumin en í framhaldinu fækkaði bílstjórum sem eru virkir af þeim ástæðum sem ég nefndi áðan,“ segir Daníel en eftirspurnin er alla jafna mest á morgnana.

„Við höfum heyrt frá fólki sem þarf að bíða eftir bíl á morgnana og svo um helgar þegar allir fara út á sama tíma. Áður vorum við svo sem vanir því að eina helgi í mánuði myndaðist röð í bænum þegar staðirnir loka, enda er með ólíkindum hversu margir fara að skemmta sér á sama svæði. Við sinnum þessu eins vel og við getum og vinnum eins mikið og hægt er. Þeir afleysingabílstjórar sem eru til taks, taka að sér afleysingar um helgar, en í samdrættinum fóru einfaldlega margir í aðra vinnu.“  

Ofboðslegur fjöldi sem keyrir svart

Daníel bendir á að erfitt sé að meta hvort framboð og eftirspurn eftir leigubifreiðum sé í jafnvægi þegar svört starfssemi leynist á markaðnum, sem hann fullyrðir að sé umfangsmikil.

„Ekki er hægt að leggja fram raunhæft mat á framboð og eftirspurn vegna þess að mikill svartur leiguakstur er í gangi sem fleytir rjómann af kökunni. Það er ofboðslegur fjöldi sem keyrir svart og tekur af okkur vinnu. Þegar fækkar í þeim hópi tímabundið, eins og getur gerst um mánaðamót, þá eykst álagið aftur hjá okkur. Einstaklingar sem eru 18 ára og eldri eru ekki fulltryggðir í ólöglegum leiguakstri heldur fara þeir á eigin ábyrgð ef svo má segja. Stjórnvöld hafa ekki getað tekið á þessum vanda, þrátt fyrir okkar ábendingar og varnaðarorð. Þess vegna hefur þetta fengið að þrífast og vinda upp á sig. Við getum ekki lagt raunhæft mat á framboð og eftirspurn og allra síst í þessum óvenjulegum sveiflum um þessar mundir,“ segir Daníel Orri ennfremur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert