Kollagen sem fæðubótarefni sambærilegt við matarlím

Nóg af kollageni í fisk og hefðbundnum dýraafurðum
Nóg af kollageni í fisk og hefðbundnum dýraafurðum Þorgeir Baldursson

Kollagen fæðubótavörur hafa álíka heilsubætandi áhrif og matarlím og fara neytendur í raun á mis við nauðsynlega næringu ef kollagen inntaka er einungis frá fæðubótarefnum. Þetta kemur fram í svari Vísindavefsins sem birt var í dag.

Svar Vísindavefsins tók fyrir hvort að kollagen væri jafn hollt og gagnlegt og framleiðendur fæðubótarefna vilja meina. Þar svöruðu höfundar greinarinnar, þeir Björn Geir Leifsson læknir og Geir Gunnar Markússon næringarfræðingur, þeirri spurningu á sama tíma og þeir gerðu grein fyrir því hvar má finna kollagen í hefðbundnum matvælum. 

Ekkert sérstakt við kollagen vörur 

Í greininni er bent á að undanfarið hafa ýmsar matarvörur og drykkjarvörur verið auglýstar með loforðum um sterkari liðamót og minni hrukkur þökk sé fæðubótarefninu kollagen. Björn og Geir benda þó á að kollagen er að finna í nánast öllum mat sem kemur úr dýraríkinu. Hafa því engar vörur unnar úr kollageni meiri heilsubætandi eiginleika en önnur hefðbundin prótínnæring. Þar að auki er bent á að þau efni sem eru þar á ferðinni séu algerlega sambærileg við venjulegt matarlím. 

Samkvæmt greininni fara neytendur í raun á mis við aðra nauðsynlega næringu ef kollagen inntaka er eingöngu fengin frá umræddum fæðubótarefnum. „Lítill munur er á amínósýruinnihaldi kollagens í fiskum og öðrum dýrum og hreinsaða kollagenið sem er í fæðubótarvörunum skortir alls kyns önnur nauðsynleg efni sem fást við að borða fjölbreytta fæðu.“  

Jafnframt benda Björn og Geir á að sú staðhæfing að kollagen unnið úr fiski sé betra fyrir fólk en kollagen úr öðrum dýrum sé einungis mýta. „Kollagenprótínið er mjög svipað í dýrum og fiskum og því er ekki hægt að halda því fram að vara unnin úr fiski sé á einhvern hátt betri að innihaldi.“ 

Óáreiðanlegar rannsóknir 

Þar að auki er tekið fram í greininni að þær rannsóknir sem að fæðubótaframleiðendur bera oft fyrir sig sem sönnun fyrir heilsubætandi eiginleika varanna eru oft á tíðum ekki allar eins og þær eru séðar.  

„Þær rannsóknir sem geta talist marktækar gefa misvísandi niðurstöður og þar sem jákvæð áhrif sjást í vel gerðum rannsóknum eru þau svo lítil að það skiptir ekki máli. Samantekið þá staðfesta ekki þær marktæku rannsóknir sem hafa verið gerðar neina heilsubótarvirkni af því að neyta kollagens sem fæðubótarvöru.“

Framleiða matarlím og fæðubótarefni hlið við hlið 

Að lokum undirstrika Björn og Hlynur að vert sé að hafa í huga að sala fæðubótarefna er gífurlega ábatasamur iðnaður. Bera þeir þá saman að matarlím kostar um 7.250 kr á kílóið á meðan að íslenskt fæðubótarefni unnið úr fiski kostar 26.650 kr á kílóið. Benda þeir þá á að víða fer framleiðsla á fæðubótarefni fram samhliða matarlímsframleiðslu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert