Fasteignagjöld gætu hækkað um 22,5%

Fasteignamat íbúða hækkar um 8,9% á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár …
Fasteignamat íbúða hækkar um 8,9% á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2022. mbl.is/Sigurður Bogi

Þess má vænta að fasteignagjöld muni hækka um 22,5% á næsta ári, lækki sveitarfélög ekki álagsprósentu sína.

Þetta segir Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis, í samtali við mbl.is, en breytingin helgast af mikilli hækkun fasteignaverðs undanfarið ár.

Fasteignagjöld eru árlega lögð á allar fasteignir, nema þær séu undanþegnar með lögum, og skiptast fasteignagjöld í fasteignaskatt, lóðarleigu, sorphirðugjald og gjald vegna endurvinnslustöðva.

Tekjurnar hækka um fimmtung

Fasteignagjöld miðast við mat á febrúarverðlagi ári áður en gjöldin eru lögð á.

„Ef sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu breyta ekki álagsprósentunni þá þýðir þetta í raun tekjuaukningu sem samsvarar þeirri fasteignaverðhækkun sem við höfum verið að sjá síðasta ár,“ segir Konráð.

„Með hæfilegri einföldun má segja að, til dæmis fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þá myndu tekjur þeirra á fasteignagjöldum íbúðarhúsnæðis einstaklinga hækka um fimmtung á milli ára ef að þau lækka ekki álagningarprósentuna.“

Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis.
Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis. mbl.is/Eggert

Fasteignagjöld miða við febrúarverðlag

Í samtali við mbl.is var Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, spurður hvort að til stæði að lækka álagningarprósentuna til að mæta þessari hækkun.

„Hvert og eitt sveitarfélag fyrir sig ákveður álagningarprósentuna,“ segir hann.

„Það er mismunandi pólitík í gangi í hverju sveitarfélagi, en við í Garðabæ höfum lækkað álagningarprósentuna úr 0,26% í 0,179% til að ná í skottið á fasteignamatinu.“

Gjaldstofn til álagningar fasteignaskatts er fasteignamat, en fasteignaskattur reiknast sem hlutfall af fasteignamati miðað við skráða notkun fasteignar. Fasteignagjöld miðast þar með við mat á febrúarverðlagi ári áður en gjöldin eru lögð á, eins og áður sagði.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

8,9% hækkun á höfuðborgarsvæðinu

Heildarmat fasteigna á Íslandi öllu hækkar um 7,4% frá yfirstandandi ári og verður 10.340 milljarðar króna, samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2022. Þetta er umtalsvert meiri hækkun en tilkynnt var fyrir ári síðan þegar fasteignamat hækkaði um 2,1% á landinu öllu.

Á vef Þjóðskrár segir að fasteignamat íbúða hækki um 8,9% á höfuðborgarsvæðinu á meðan hækkunin er 5,2% á landsbyggðinni.

Gunnar bendir á að sveitarfélögin taki til skoðunar hvort lækka þurfi álagningarprósentuna.

„Fasteignamatið er alltaf að hækka, en þá höfum við lækkað álagningarprósentuna til móts við það. Ef það hækkar rosalega mikið, t.d. eins og á þessu ári, þá taka menn örugglega upp í hverju sveitarfélagi fyrir sig hvort lækka þurfi prósentuna svo að íbúar séu að borga svipaða krónutölu milli ára,“ segir Gunnar.

„Það þarf líka að horfa til þess að samhliða þessu hækkar fasteignin einnig í verði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert