Undirbúa að senda íslenska lögreglumenn á landamærin

Ríkislögreglustjóri undirbýr nú að senda mögulega út lögreglumenn til að …
Ríkislögreglustjóri undirbýr nú að senda mögulega út lögreglumenn til að aðstoða á landamærum Úkraínu og nágrannalanda sinna. AFP/GIL COHEN-MAGEN

Ríkislögreglustjóri undirbýr nú mögulega þátttöku íslenskra lögreglumanna til starfa á landamærum Úkraínu við nágrannalönd sín Pólland, Slóvakíu, Rúmeníu og Moldavíu. Er það gert í samráði við Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex, en stofnunin hefur á undanförnum vikum sent 257 fulltrúa úr stöðuliði stofnunarinnar til aðstoðar á landamærunum.

Gera ráð fyrir 3.000 landamæravörðum til aðstoðar

Í nýrri stöðuskýrslu landamærasviðs ríkislögreglustjóra, vegna stríðsátakanna og fjölgunar flóttafólks frá Úkraínu, kemur fram að Frontex geri nú ráð fyrir að senda allt að 3.000 landamæraverði og aðra sérhæfða starfsmenn til aðstoðar á landamærunum þar sem þeirra sé þörf. Undirbúi embættið þátttöku í því verkefni.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun þá séu öll búsetuúrræði hjá sveitarfélögum sem stofnunin er með samninga við fullnýtt. Heildarnýting skammtímaúrræða  sem stofnun hefur yfir að ráða í komin í 74% nýtingu og heildarfjöldi í þjónustu hjá Útendingastofnun er 649 einstaklingar og þar af 107 einstaklingar með tengsl við Úkraínu.

237 komið frá Úkraínu og sótt um vernd frá því að stríð hófst

Heildarfjöldi einstaklinga í þjónustu hjá Útlendingastofnun og sveitarfélögunum er nú 1.011.

Samtals hafa 237 einstaklinga rmeð tengsl við Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi frá því að stríðið braust út. Hópurinn skiptist þannig, 126 konur, 66 börn, 45 karlar.

Heildarfjöldi einstaklinga með tengsl við Úkraínu sem sótt hafa um vernd sl. 7 daga er 134 eða 19 einstaklingar að meðaltali á dag. Í skýrslunni segir að ef sjö daga meðaltal er notað sem farspárgildi fyrir fjölda einstaklinga með tengsl við Úkraínu sem sækja um vernd út mars mánuð þá megi gera ráð fyrir því að sá fjöldi verði um 280 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert