Aðgengið vakti athygli erlendis

Margir landsmenn nýttu sér að hægt væri að tylla sér …
Margir landsmenn nýttu sér að hægt væri að tylla sér í námunda við gosið og fylgjast með. mbl.is/Kristinn Magnússon

Magnús Tumi Guðmundsson, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við HÍ, segir að fyrst það þurfti að gjósa á Reykjanesskaganum þá hafi eldgosið í Fagradalsfjalli verið mjög vel staðsett. 

Raunar hafi umhverfið nánast verið eins og hannað fyrir fólk til að fylgjast með undrinu. Á laugardag verður ár liðið frá því gosið hófst og mbl.is hafði samband við Magnús Tuma af því tilefni. 

„Það var mjög fróðlegt að verða vitni að þessu gosi og hvernig hraunið fyllti dalina. Erfitt var að spá fyrir um hvert það færi en svo fór að hraunið fór ekki yfir neina vegi og engin eyðilegging varð. Ef gosið hefði haldið verulega lengi áfram þá hefði það getað farið yfir Suðustrandaveg en það átti töluvert eftir í það,“ segir hann.

Björgunarsveitarmenn með eldgosið í baksýn.
Björgunarsveitarmenn með eldgosið í baksýn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fyrst það þurfti að gjósa þá var þetta mjög vel staðsett og var aðgengilegt. Við skulum ekki gera lítið úr því að þarna fékk fólk tækifæri til að skoða eldgos betur en nánast nokkur önnur kynslóð Íslendinga hefur getað gert.

Við fengum nánast öll sem vildum tækifæri til að skoða þetta og komust býsna nálægt til að sjá þessi undur. Það var gaman og það var nánast eins og þessi staður hefði verið byggður fyrir þetta. Þarna í kring eru þessir lágu hnjúkar. Maður gat farið upp á þá og séð yfir hraunið og yfir gíginn. Þetta var eins túristavænt eldgos og hægt er að hafa,“ segir Magnús Tumi en minnir einnig á að aðdragandinn var ekki skemmtilegur fyrir Grindvíkinga. 

Jarðskjálftarnir voru fólki erfiðir

„Það má ekki gleyma því að þessum atburði fylgdi töluvert álag fyrir Grindvíkinga sérstaklega. Jarðskjálftarnir í aðdragandanum voru náttúrlega mjög erfiðir. Það var eiginlega léttir hjá íbúum þar þegar fór að gjósa.

Einnig lenti feikilega mikil vinna á björgunarsveitum og fleirum. Það tókst mjög vel þrátt fyrir að einhver slys hafi orðið eins og gengur. Skráðar ferðir á gosstöðvarnar voru 360 þúsund meðan á þessu stóð. Hlutfallslega voru því mjög fáir sem slösuðu sig.“

Vitnisburður um okkar góðu björgunarsveitamenningu

Magnús Tumi bendir á að þetta sé ekki sjálfgefið. 

„Ég held að þetta sé vitnisburður um okkar góðu björgunarsveitamenningu og sá vani að vinna saman þegar á þarf að halda. Björgunarsveitir, lögreglan og fleiri vinna saman þegar þörf er á og það tókst mjög vel að ég held. Það er ekki sjálfgefið og víða annars staðar er allt önnur menning gagnvart svona löguðu en þá geta verið miklar lokanir.

Það er því ekki bara eldvirknin sjálf sem er áhugaverð. Víða erlendis er tekið eftir því að fólk gat farið að gosstöðvunum og séð þetta,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson en einnig er rætt við hann í Morgunblaðinu sem kom út í morgun.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert