Bjórland og Santewines höfðu betur gegn ÁTVR

Arnar Sigurðsson, forsvarsmaður Santewines og Ívar Arndal, forstjóri ÁTVR, en …
Arnar Sigurðsson, forsvarsmaður Santewines og Ívar Arndal, forstjóri ÁTVR, en hann skrifaði undir stefnurnar. Samsett mynd

Tveimur málum ÁTVR gegn Bjórlandi annars vegar og Santewines hins vegar var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur nú eftir hádegi í dag. ÁTVR hafði höfðað einkamál gegn Bjórlandi og Santewines þar sem stofnunin taldi félögin hafa valdið stofnuninni tjóni með sölu félaganna á áfengi í gegnum netsölur sínar. Fór ÁTVR meðal annars fram á að viðurkennd yrði bótaskylda vegna meints tjóns sem ÁTVR hefði orðið fyrir af sölu áfengis sem ekki var selt á grundvelli einkaleyfis ÁTVR til smásölu áfengis hér á landi.

Fóru bæði Bjórland og Santewines fram á að málunum yrði vísað frá dómi og töldu ÁTVR ekki eiga lögvarða hagsmuni af málshöfðuninni. Þá sé fjármálaráðherra æðsti yfirmaður stofnunarinnar og að hann hafi almennar stjórnunar- og eftirlitsheimildir og að starfsemi ÁTVR sé undir hans stjórn. Töldu félögin að í lögum um ÁTVR komi heldur ekki fram að stofnunin skuli hafa eftirlit með sölu annarra aðila.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að óumdeilt sé að ÁTVR sé aðildarhæft að málinu. Dómkröfur stofnunarinnar hafi hins vegar lotið að framfylgd verkefna sem sem ÁTVR sé falið samkvæmt lögum. Segir að stofnunin hafi ekki getað sýnt fram á það á hvaða lagagrundvelli lögvarðir hagsmunir af úrlausn málsins byggi og að ekki sé nægilegt að vísa í almennt hlutverk ÁTVR og markmiðsákvæði laga sem byggi á lýðheilsusjónarmiðum og sjónarmiðum um samfélagslega ábyrgð. Því geti ÁTVR ekki talist hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Tekur dómurinn meðal annars fram að annmarkar á málatilbúnaði ÁTVR séu slíkir að þeir leiði til frávísunar málanna í heild, fremur en að á þá reyni við efnisúrlausn málsins.

Jafnframt tekur dómurinn fyrir bótaskyldukröfuna og segir verulega skorta á að skilyrði sem gerðar séu til tilvistar tjóns séu uppfyllt.

Að lokum tekur dómurinn fram að málatilbúnaður ÁTVR í heild sinni beri þess merki að verið sé að leggja lögspurningu fyrir dóminn um það hverjum sé heimilt að fara með sölu áfengis á Íslandi, en án nægjanlegra tengsla við tiltekið og afmarkað sakarefni. Segir dómurinn það ekki forræði ÁTVR að fá úrlausn um það álitaefni og ekki heldur í þeim búningi sem málið var lagt fyrir dóminn.

Er ÁTVR jafnframt gert að greiða félögunum málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert