Að missa meydóminn

Sara Gunnarsdóttir teiknimyndateiknari hefur unnið í eitt og hálft ár …
Sara Gunnarsdóttir teiknimyndateiknari hefur unnið í eitt og hálft ár að myndinni My Year of Dicks sem sýnd verður á Stockfish. mbl.is/Arnþór Birkisson

Unglingsárin geta verið erfið og flókin og oft er talað um að lifa þau af. Í nýrri teiknimynd sem heitir því skemmtilega nafni My Year of Dicks er unnið með textabrot úr bók Pamelu Ribon, handrits- og metsöluhöfundar sem hefur getið sér gott orð í hinum listræna teiknimyndaheimi. Myndin er rómantísk gamansería sem fjallar um fimmtán ára unglingsstelpu sem hefur sett sér það markmið að missa meydóminn. Hún hefur verið frumsýnd erlendis en verður nú sýnd á Stockfish-kvikmyndahátíðinni sem haldin er 24. mars til 3. apríl í Bíó Paradís. Sara Gunnarsdóttir leikstýrir myndinni og klippir, en hún er enginn nýgræðingur á sviði listrænna teiknimynda.

Tilraunakennt efni

Hvernig vinnur maður svona mynd eins og My Year of Dicks?

„Þetta byrjar allt með bók eftir Pamelu sem er sjálfsævisöguleg minningabók sem heitir Notes to Boys: And Other Things I Shouldn’t Share in Public. Bókin fékk fínar viðtökur. Sjónvarpsstöðin FX-Network bað hana að taka efni úr bókinni og búa til litla seríu með stuttum teiknimyndaþáttum fyrir þátt sem heitir Cake, sem er sketsaþáttur með tilraunakenndu efni, bæði leiknu og teiknuðu,“ útskýrir Sara og segir FX-Network vera einn af fáum vettvöngum þar sem verið er að kaupa slíkt tilraunakennt efni.

My Year of Dicks kitlar hláturtaugar áhorfandans en margir eiga eftir að geta sett sig í spor hinnar ungu Pamelu og vandræðagang unglingsáranna þegar allir eru að reyna að passa inn, segja það rétta og kynnast ástinni og kynlífi.

Tækifæri til að leikstýra

„FX hafði svo samband við mig sumarið 2020 og vantaði einhvern til að leikstýra þessari seríu,“ segir Sara og segist hafa stokkið á þetta góða tækifæri.

„Þarna kom tækifæri fyrir mig að leikstýra öllu verkinu. Ég teikna ekki myndina ein; ég var með sjö listamenn sem unnu við að teikna hana, þrjá bakgrunnslistamenn og einn sem litaði,“ segir hún og segir algengt að svo margir komi að gerð einnar teiknimyndar, enda mikil vinna.

Hér má sjá stillu úr teiknimyndinni My Year of Dicks.
Hér má sjá stillu úr teiknimyndinni My Year of Dicks.

„Það er svo ég sem hanna útlitið og er með nálgunina sem listrænn stjórnandi eða leikstjóri. Það var frábært að geta ráðið alla þessa góðu listamenn en þeir fengu allir sinn sérstaka kafla eða búta og fengu þannig að setja sitt mark á efnið,“ segir hún og segir gerð myndarinnar hafa í heild tekið um eitt og hálft ár.

Lúxus að vinna heima

„Myndin verður ekki sýnd á FX-network fyrr en síðar í sumar en hefur verið sýnd á kvikmyndahátíðinni SXSW í Texas og fékk góðar viðtökur,“ segir Sara, en myndin fékk þar einmitt viðurkenningu sérstakrar dómnefndar fyrir óvenjulega sýn í skrifum og leikstjórn, eða „Special Jury Recognition for Unique Vision in Writing and Directing“.

Sara segir vinnu sína mjög skemmtilega og finnst gott að geta unnið hana heima hjá sér.

„Mér finnst það lúxus. Ég er búin að vinna þannig lengi. Ég er komin með annan fótinn inn í bransann í Bandaríkjunum og eftir að Covid kom fóru fleiri að vinna heiman frá sér. Það gerði að verkum að við fjölskyldan gátum flutt heim til Íslands,“ segir Sara, en hún er nýflutt heim eftir að hafa búið í Bandaríkjunum í fjórtán ár, bæði í Kaliforníu og New York.

Hvað er á döfinni?

„Ég er byrjuð á sjónvarpsþáttaseríu fyrir Apple TV sem er byggð á bókinni City on Fire, en sagan gerist í New York. Það er einmitt svona verkefni þar sem ég geri teiknimyndir inn í leikna seríu,“ segir Sara og er greinilegt að það er margt spennandi fram undan. Þess má geta að Pamela verður einn af gestum Stockfish í ár en þær Sara munu sitja fyrir svörum eftir frumsýningu þáttanna auk þess sem Pamela verður einn af þátttakendum í pallborðsumræðum um nútímahandritsgerð á Bransadögum Stockfish á Selfossi.

Ítarlegt viðtal er við Söru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert