Fasteignaverð hækkaði mest á Íslandi

Fasteignaverð hækkaði mest á Íslandi.
Fasteignaverð hækkaði mest á Íslandi. mbl.is/Ásdís

Fasteignaverð hækkaði mest á Íslandi af öllum Norðurlöndunum í kórónuveirufaraldrinum, að því er kemur fram í skýrslunni State of the Nordic Region.

Þar kemur einnig fram að landsframleiðsla dróst mest saman hérlendis. Atvinnuleysi jókst mest á Íslandi á sama tímabili en mótvægisaðgerðir stjórnvalda virðast engu að síður hafa borið góðan árangur.

Fæðingartíðni á Íslandi fór vaxandi líkt og í og flestum hinna Norðurlandanna sem er meðal annars túlkað sem traust í garð norræna velferðarkerfisins og hvernig stjórnvöld taka á áföllum, að því er kemur fram í tilkynningu.

Lituð af faraldrinum

State of the Nordic Region kemur út annað hvert ár á vegum Nordregio, rannsóknarstofnun Norrænu ráðherranefndarinnar. Efni skýrslunnar að þessu sinni er skiljanlega nokkuð litað af faraldrinum og áhrifum hans á efnahag, vinnumarkað, fólksflutninga og lýðfræðilega þróun innan Norðurlandanna.

„Mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum virðast hafa skilað nokkuð góðum árangri á Íslandi, þar sem ferðaþjónusta er stór atvinnugrein sem varð fyrir miklum áhrifum af heimsfaraldrinum. Á Íslandi urðu gjaldþrot árið 2020 hins vegar talsvert færri miðað við meðaltal áranna 2014-2019," segir Gustaf Norlén einn ritstjóra State of the Nordic Region og greinandi hjá Nordregio, í tilkynningunni.

„Verg landsframleiðsla dróst engu að síður mest saman á Íslandi af öllum Norðurlöndunum, eða um 6,5% á árinu 2020 samanborið við -2,9% í Finnlandi, -2,8% í Svíþjóð, -2,1% í Danmörku og aðeins 0,8% í Noregi."

Vinna að heiman hefur áhrif

Þegar húsnæðisverð er skoðað sérstaklega sést að það hækkaði almennt talsvert á öllum Norðurlöndunum síðastliðin tvö ár, en þó mest á Íslandi. Þar á eftir koma verðhækkanir húsnæðis í Svíþjóð, Danmörku og Noregi á meðan Finnland sker sig nokkuð úr með hóflegri verðhækkunum og stöðugri húsnæðismarkaði.

„Það blasir við að hlutfall þeirra sem vinna að heiman hefur aukist mikið sem hefur haft áhrif á ferðahegðun, húsnæðisverð og val á búsetu. Húsnæðisverð í sumum landsbyggðarsvæðum Norðurlandanna - til dæmis í Åre í Svíþjóð og Bornholm í Danmörku - jókst meira en í stórborgunum. Þegar verð á landsvísu er svo skoðað var hækkunin mest á íbúðarhúsnæði á Íslandi," segir Linda Randall, annar skýrsluhöfunda hjá Nordregio, í tilkynningunni.

Atvinnuleysi jókst mest á Íslandi

Heilt yfir sýnir skýrslan að norrænu hagkerfin hafa höndlað heimsfaraldurinn betur en flest önnur ríki Evrópu þótt neikvæð áhrif hafi alstaðar verið umtalsverð. Af Norðurlöndunum jókst atvinnuleysi mest á Íslandi í kjölfar Covid-19 og heimsfaraldurinn hefur einnig leitt í ljós vaxandi félagslega gjá á milli ólíkra svæða og þjóðfélagshópa á Norðurlöndum, sérstaklega milli ólíkra tekjuhópa og milli landsbyggðar og þéttbýlisstaða.

„Skýrslan sýnir að veikari hópar eins og aldraðir, þeir sem fæddir eru erlendis og ungt fólk hafa orðið fyrir neikvæðustu áhrifum heimsfaraldursins, einnig hér á Norðurlöndunum, bæði hvað varðar heilsu og fjárhag. En jafnframt sjáum við að stuðningsaðgerðir stjórnvalda við fyrirtæki og launþega hafa stuðlað að færri gjaldþrotum og talsvert hraðari bata en eftir fjármálakreppuna 2008," segir Gustaf Norlén.

Í skýrslunni sést að fæðingartíðni hefur aukist á öllum Norðurlöndunum nema Svíþjóð í kjölfar heimsfaraldursins. Þetta er öfugt við þróun margra annarra Evrópuríkja þar sem fæðingartíðni dróst saman. Þessar niðurstöður hafa m.a. túlkaðar sem merki um traust fólks á velferðarkerfinu og getu norrænu hagkerfanna til að takast á við áföll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert