Fyrstu flóttamennirnir orðnir sjúkratryggðir

mbl.is/Sigurður Bogi

Í dag fá fyrstu tuttugu flóttamennirnir frá Úkraínu íslenska sjúkratryggingu og þar með fullan rétt til greiðsluþátttöku hins opinbera í nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkratryggingum Íslands. 

Vilja tryggja skjóta afgreiðslu

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, segir gögn um þennan hóp hafa borist stofnuninni eftir hádegi í gær. Lagt hafi verið kapp á að klára alla skráningu samdægurs og því er tryggingin orðin virk í dag.

„Við höfum lagt kapp á að tryggja skjóta afgreiðslu þannig að þessi viðkvæmi hópur geti haft greitt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, enda má reikna með að margir innan hópsins séu í brýnni þörf fyrir ýmis konar aðstoð. Fjölmörg ungabörn eru í hópnum og þau ganga inn í öflugt ungbarnaeftirlit sem við höfum hér á landi,“ er haft eftir Maríu til tilkynningunni.

Hún segir undirbúning hafa gengið mjög vel og að þau hafi átt frábært samstarf meðal annars við Rauða krossinn, Útlendingastofnun, Heilsugæsluna, Þjóðskrá og íslenska sjálfboðaliða.

Flóttamenn í forgang

Í tilkynningunni segir að Sjúkratryggingar muni áfram setja útgáfu trygginga fyrir flóttamenn í forgang þannig að þær verði virkar innan sólarhrings frá því nauðsynleg gögn berast.

Jafnframt gerir stofnunin ráð fyrir því að taka þátt í móttöku flóttamanna í miðstöðinni í Domus Medica með því að vera þar með fulltrúa sem geta gefið upplýsingar um afgreiðslu hjálpartækja og lyfjakorta, greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu o.fl.

Þá er tekið fram að flóttamenn, eins og aðrir, hafi ávallt aðgang að bráðaþjónustu óháð því hvort sjúkratrygging er frágengin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert