Í varðhald eftir ítrekaðar sprengjuhótanir

Talið er að maðurinn hafi sent sprengjuhótun á Alþingi fyrr …
Talið er að maðurinn hafi sent sprengjuhótun á Alþingi fyrr í mánuðinum. mbl.is/​Hari

Karlmaður hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald vegna fjölda mála sem eru í rannsókn þar sem hann kemur við sögu, en meðal annars er um að ræða mál þar sem maðurinn er grunaður um sprengjuhótanir gagnvart stofnunum eins og Alþingi.

Þá er maðurinn einnig grunaður um aðrar hótanir, líkamsárásir, umsáturseinelti, húsbrot, eignaspjöll, brot gegn opinberum starfsmönnum, brot gegn nálgunarbanni, skjalafals og vopnalagabrot.

Landséttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá í síðustu viku, en þar var hann úrskurðaður í varðhald til 13. apríl.

Hótaði að sprengja ráðhúsið í Reykjanesbæ

Var maðurinn handtekinn við ráðhúsið í Reykjanesbæ vegna gruns um að hafa sent tvo tölvupósta á ensku á netfang embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum um að sprengiefni væri í byggingunni og að rýma ætti hana. Fram kemur í úrskurðinum að maðurinn hafi jafnframt hrækt á lögreglumenn við handtökuna.

Samtals eru sjö mál í rannsókn gegn manninum á ellefu daga tímabili. Þennan sama dag hafði ríkissaksóknar einnig borist sams konar sprengjuhótun, en hún kom úr sama tölvupóstfangi og hin sprengjuhótunin. Grunur beinist strax að þessum sama manni.

Daginn áður hafði svo komið tilkynning frá öðrum manni þar sem hann sagði hinn kærða hafa ráðist að sér með líflátshótunum í Firði í Hafnarfirði. Hafði hann áður kært manninn vegna svipaðra brota.

Manninum er gert að sæta varðhaldi til 13. apríl vegna …
Manninum er gert að sæta varðhaldi til 13. apríl vegna ítrekaðra brota. mbl.is/Hanna

Hótað að sprengja upp Alþingi

Í úrskurðinum segir svo að 10. mars hafi Alþingi borist sprengjuhótun á ensku, en hótunin þótti bera kennimark mannsins, en hann er einnig grunaður um ítrekaðar sambærilegar sprengjuhótanir í fyrra. Sagði nú að sprengja myndi springa strax á Alþingi og var í kjölfarið framkvæmd sprengjuleit af sprengjuleitarsérfræðingum, sérsveit og hundi.

Öryggisverðir voru svo 7. mars boðaðir vegna árásarboðs frá afgreiðslu ríkissaksóknara, en þar var maðurinn á vettvangi og þótti æstur. Hafði hann haft uppi beinar líflátshótanir í garð ákveðins starfsmanns og var hann í kjölfarið handtekinn. Kom í ljós að hann hafði daginn áður sent ítrekaðar líflátshótanir með tölvupósti á starfsmann stofnunarinnar, en slíkar sendingar höfðu einnig borist í janúar.

Mættur á bráðamóttöku og hótaði starfsfólki

Tveimur dögum áður hafði maðurinn svo haft í hótunum á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi ef hann fengi ekki afgreiðslu á innan við 45 mínútum. Þekktu starfsmenn spítalans til mannsins, en hann hafði áður komið og verið til vandræða og haft í hótunum.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði maðurinn að hafa sent sprengjuhótanir í tölvupósti, en farsími hans var haldlagður og er beðið úrskurðar til að geta rannsaka efnisinnihald símans.

91 tilvik til meðferðar lögreglu

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að maðurinn hafi komið fyrst til Íslands í janúar 2017 og sótt um alþjóðlega vernd og fengið hana í maí 2018. Á árunum 2017-2021 hefur lögregla haft til meðferðar alls 91 tilvik þar sem maðurinn er grunaður um refsiverða háttsemi, m.a. fjöldi mála sem varði hótanir um hryðjuverk, aðrar hótanir, líkamsárásir, umsáturseinelti, húsbrot, eignaspjöll, brot gegn opinberum starfsmönnum, brot gegn nálgunarbanni, skjalafals og vopnalagabrot.

Ráðhúsið í Reykjanesbæ. Talið er að maðurinn hafi einnig sent …
Ráðhúsið í Reykjanesbæ. Talið er að maðurinn hafi einnig sent sprengjuhótun þangað. mbl.is/Ómar

Hefur hlotið tvo dóma áður

Áður hefur maðurinn í tvígang hlotið dóm. Annars vegar 30 daga fyrir skjalafals og 45 daga fyrir skjalafals og umferðarlagabrot.Auk ofangreindra tilvika sem eru til rannsóknar hefur lögregla einnig sinnt á annað hundrað verkefnum sem varða manninn, m.a. tilkynningar um áreiti hans gagnvart einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum þar sem hann hafi mætt og haft uppi ógnandi tilburði og hótanir sem og sent tölvupósta.

Segir í úrskurðinum að flestir þessara aðila eigi það sameiginlegt að hafa veitt manninum þjónustu eða aðstoð í gegnum tíðina. Má þar nefna lögreglu, dómsmálaráðuneytið, ríkissaksóknara, starfsmenn Landspítala, þrjár þjónustumiðstöðvar borgarinnar, starfsmann Mannréttindaskrifstofu Íslands, lögmenn, lögmannsstofur og túlka. Var manninum í tvígang gert að sæta nálægunarbanni gagnvart einstaklinga vegna hótana og ógnana, en tekið er fram að áreiti hans hafi verið mjög ítrekað og á tíðum ofbeldisfullt. Er hann undir grun að hafa brotið gegn nálgunarbanni í alla vega eitt skipti. Í heild á maðurinn nú 23 ólokin mál í refsivörslukerfinu.

Hegðun hans stigmagnast undanfarið

Tekið er fram í úrskurðinum að lögreglan telji manninn undir rökstuddum grun um fjölmörg brot og þá hafi hann einbeittan brotavilja og virðist ekki vera að láta af brotastarfsemi sinni. Jafnvel sé talið að hegðun hans hafi undanfarið stigmagnast, en í marsmánuði er málafjöldi gegn honum kominn upp í sjö. Þá sé um alvarleg brot að ræða, sprengjuhótanir og líflátshótanir.

Héraðsdómur tók ekki undir sjónarmið lögreglustjórans um að líklegt væri að maðurinn gæti torveldað rannsókn þeirra mála sem eru í gangi væri hann frjáls ferða sinna eða að hann myndi reyna að afmá merki eftir brot eða skjóta undan munum. Hins vegar sé mikil hætta á ofbeldishegðun mannsins og er þar með forsenda fyrir gæsluvarðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert