Kaflaskil í íslensku skemmtanalífi?

Frá miðborg Reykjavíkur.
Frá miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Ari

Djammið í miðborginni gæti verið að taka breytingum í kjölfar tveggja ára tímabils af síbreytilegum afgreiðslutíma. Þetta segja rekstraraðilar vinsællar kráar annars vegar og skemmtistaðar hins vegar í miðborg Reykjavíkur.

Aðsóknin virðist vera dreifðari – sumir byrja fyrr að skemmta sér eins og tíðkaðist á tímum faraldurs en aðrir hverfa aftur til fyrra horfs.

Yfirstaðin helgi var sú fimmta í röð án samkomutakmarkana og markaði jafnframt lengsta óslitna tímabil af engum samkomutakmörkunum frá upphafi faraldursins.

Kormákur Geirharðsson, sem á og rekur Ölstofu Kormáks og Skjaldar, segir skemmtanalífið á góðri leið með að renna í sinn farveg að nýju en fólk hafi þó ekki sama úthald og áður.

Orkan fari upp með góðu sumri

„Menn eru farnir að geispa fljótlega upp úr eitt og komnir í vatnið hálfþrjú,“ segir Kormákur um stemningu síðustu helgar.

Það séu þá helst eldri viðskiptavinir sem séu orðnir þreyttir, þeir sem kannski entust út nóttina „hér í denn“, áður en heimsfaraldurinn skall á.

Kormákur segir að sig gruni að fólk sé byrjað að fara fyrr út á lífið. „Ég held að fólk fari til dæmis fyrr út að borða.“ Fólk sem áður pantaði borð klukkan átta sé ef til vill mætt klukkan sex og sé því eðlilega orðið þreytt fyrr, byrji það fyrr.

„En kannski með hækkandi sól þá færist þetta í gamla horfið. Ef við fáum gott sumar held ég að orkan fari aftur upp. Í mínum huga eiga menn eftir að vera með mismunandi afgreiðslutíma, eftir því hvernig kúnnahópurinn er samansettur. Fjölbreytni er af hinu góða.“

Þurfti upprifjun eftir langt frí

Geoffrey Huntingdon-Williams, eigandi Priksins, skemmtistaðar sem ef til vill yngra fólk sækir, hefur svipaða sögu að segja.

„Heilt yfir sjáum við að þessi Covid-stíll af skemmtanalífi, þar sem fólk mætti snemma í miðborgina, hann hefur alveg haldist,“ segir Geoffrey.

Hann segir að með hverri helginni hafi flæðið þó rétt úr sér. „Fyrstu helgarnar var fólk kannski búið á því [þegar staðnum var lokað] og farið heim. Við getum orðað það þannig að það hafi þurft einhverja smá upprifjun eftir langt frí en fólk virðist vera komið í gírinn aftur og kunna þetta núna.“

Geoffrey segir ekki eins marga mæta á sama tíma og gekk og gerðist. „Þetta er dreifðara en það var áður. Það er einhver breyting sem hefur átt sér stað og hún er af hinu góða.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert