Ekki gert ráð fyrir þjóðarleikvöngum

Laugardalshöll.
Laugardalshöll. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ekki er gert ráð fyrir þjóðarleikvöngum í íþróttum og nýju húsnæði fyrir Listaháskóla Íslands og Tækniskólann í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2023 til 2027.

Fram kemur í áætluninni að enn sem komið er séu þessi áform á byrjunarstigi og að endanlegt umfang framkvæmdanna liggi ekki fyrir. Þess vegna þyki ekki tímabært að gera ráð fyrir þeim í þessari áætlun.

Í áætluninni er þó gert ráð fyrir tilteknu óráðstöfuðu svigrúmi til fjárfestinga. „Þetta svigrúm vex smám saman yfir tíma og verður orðið allnokkuð undir lok tímabilsins og gæti það ef til vill rúmað einhver stærri fjárfestingarverkefni á síðari hluta tímabilsins,“ segir þar.

Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem var birtur í nóvember síðastliðnum kom fram að unnið verði áfram að uppbyggingu nýrra þjóðarleikvanga fyrir íslenskt afreksíþróttafólk. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, greindi í desember frá því að allar forsendur væru fyrir því að farið verði í byggingu þjóðarleikvanga.

Fram kemur fjármálaáætluninni að aðstaða ýmissa íþróttagreina sem standa framarlega í alþjóðlegri keppni sé orðin gömul og uppfylli ekki alþjóðlega staðla. Stjórnvöld skuli vinna með sveitarfélögum og íþróttahreyfingunni að uppbyggingu þjóðarleikvanga í samræmi við nýja reglugerð um þjóðarleikvanga.

„Horft er til þess að á næstu árum rísi þjóðarleikvangar fyrir inniíþróttagreinar, knattspyrnu og frjálsíþróttir eins og segir í stjórnarsáttmála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert