„Enginn sem steig á bremsuna“

Reynir Tómas Geirsson, fyrrverandi yfirlæknir á Kvennadeild Landspítalans, fyrrverandi prófessor …
Reynir Tómas Geirsson, fyrrverandi yfirlæknir á Kvennadeild Landspítalans, fyrrverandi prófessor í fæðinga-og kvensjúkdómafræði og formaður starfshópsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er álit starfshóps, sem skipaður var af Læknafélagi Íslands, að yfirfærsla leghálsskimana til opinberra aðila frá frjálsum félagssamtökum, þar sem hún hafði verið í meir en hálfa öld og þar sem náðst hafði eftirtektarverður árangur, var ekki vel rökstudd, ekki vel framkvæmd og tókst ekki sem skyldi á árinu 2021.

„Stjórnunaraðilum í heilbrigðismálum landsins hefði átt að vera ljóst að vandaðri undirbúning og mun meiri tíma hefði þurft vegna þessa umfangsmikla verkefnis og að ekki yrði rof á þjónustu sem var til staðar gegnum leitarstarf Krabbameinsfélagsins,“ segir í tilkynningu.

Aðdragandi málsins er sá að í júní 2020 fékk Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins það verkefni frá heilbrigðisráðherra að framkvæmd leghálskrabbameinsskimunar skyldi vera í þeirra höndum en hún hafði þá verið í meir en 50 ár hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

Var því aðeins rúmt hálft ár til stefnu til að framkvæma breytinguna en breytingin var gerð í því skyni að staðsetja verkefni hjá opinberum aðila í stað þess að skimunin væri á vegum félagasamtaka.

„Af hverju þurfti þetta allt að gerast svona hratt?"

Reynir Tómas Geirsson, fyrrverandi yfirlæknir á Kvennadeild Landspítalans, prófessor og formaður starfshópsins sagði á blaðamannafundi fyrr í dag að hópurinn hefði þurft að reyna að átta sig á því hvar eitthvað hefði farið úrskeiðis.

„Við gátum samt eiginlega ekki alveg svarað þessari spurningu: Af hverju þurfti þetta allt að gerast svona hratt?“

„Þarna var bara ekki nægur tími til þess að gera þetta allt saman af því það var lögð svo mikil áhersla á að keyra í gegn umbreytinguna,“ segir Reynir og bætir við: „Það var enginn sem steig á bremsuna.“

Keyrt áfram þrátt fyrir faraldur

Þegar ljóst mátti vera á seinni hluta ársins 2020 í miðjum Covid-SARS faraldri að undirbúningi var ábótavant, var yfirfærslunni samt ekki frestað, heldur keyrð áfram, að því er kemur fram í skýrslunni.

„Við vitum ekki nákvæmlega hvers vegna það þurfti að gera þetta allt með svona miklum hraða. Það þurfti allt að vera tilbúið rúmlega sex mánuðum seinna og það í miðjum Covid-faraldri,“ segir Reynir sem bendir á að heilsugæslan hafi staðið sig afskaplega vel þegar kom að faraldrinum og ekki hafi verið hægt að gera mikið annað af stórum breytingum á sama tíma.

Segir í skýrslunni að um mitt ár 2020 hafi ekki verið ljóst hvernig undirbúningi yrði háttað og að innviði hafi skort hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Auk þess virðist sem svo að yfirgripsmikil og tímasett verk- og kostnaðaráætlun hafi ekki verið gerð af hálfu forsvarsaðila í heilsugæslu eða í heilbrigðisráðuneytinu. Framkvæmdaþættir og verkferlar virðast ekki hafa verið áætlaðir heildstætt og breytingastjórnun var ekki markviss.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, fjallaði um niðurstöðurnar.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, fjallaði um niðurstöðurnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óvissa myndaðist og konur lengi að fá svör

Vegna allra þessa þátta ferlisins og fleiri sem ekki var hugsað fyrir áður en yfirfærslan varð frá Krabbameinsfélagi Íslands Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins myndaðist óvissa. Langur tími leið á árinu 2021 þar til margar konur fengu svör um niðurstöðu leghálsskimunar og enn, ári síðar, er vinna í gangi vegna þeirra erfiðleika sem sköpuðust.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, lýsir yfirfærslunni sem svo að Krabbameinsfélagið hafi verið tekið úr sambandi án þess að hitt kerfið væri tilbúið. „Hendir þessu fram af hengifluginu og það er ekkert öryggisnet.“

Yfirsýn brást hjá heilbrigðisráðuneytinu

Það er mat starfshópsins að yfirsýn og verkefnastjórnun hafi brugðist hjá heilbrigðisráðuneytinu þar sem að ábyrgðin hafi endanlega legið. Ráðuneytið fór ekki að ráðum starfshópa, embættis landlæknis eða eigin verkefnisstjórnar í undirbúningi og framkvæmd tilfærslunnar.

Þá hafi yfirstjórn Heilsugæslunnar ekki metið rétt umfang verkefnisins og embætti landlæknis hefði þurft að fara fram á betri undirbúning síðla árs 2020.

Til að sambærileg atburðarás endurtaki sig ekki þarf að mati starfshópsins vandaðan undirbúningi með aðkomu allra fagaðila sem málið varðar. Ábyrgð og verkstjórn þarf að vera skýr og nægan tíma þarf að hafa til að hrinda fyrirfram skilgreindum markmiðum í framkvæmd. Þá þarf að vera unnt að virkja faglegt ferli innan yfirstjórnar heilbrigðismála.

„Það sem við viljum gjarnan benda á er þetta að menn séu þá kannski í framtíðinni að fara sér hægar og það sé einhver bremsa í heilbrigðiskerfinu. Að menn taki að minnsta kosti fótinn af bensíngjöfinni,“ segir Reynir.

Bjartsýn á framtíðina

Í tilkynningu er þó vakin athygli á því að á Læknadögum 2022 í síðustu viku hafi komið fram að starfsemi í tengslum við leghálskrabbameinsskimanir sé að komast í gott horf og vonir standi til þess að skimunin verði í góðu lagi og komi til með að nýtast til þess að efla heilsu kvenna eins og fyrr.

mbl.is