„Fyrstu skrefin munu gerast á næsta ári“

Bjarni segist gera ráð fyrir að fyrstu kerfisbreytingarnar varðandi breytta …
Bjarni segist gera ráð fyrir að fyrstu kerfisbreytingarnar varðandi breytta skattlagningu á rafmagnsbíla verði tekin á næsta ári. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist sjá fyrir sér að fyrstu kerfisbreytingarnar þegar komi að nýju skattakerfi fyrir bifreiðar muni líta dagsins ljós strax á næsta ári. Undanfarin ár hefur ýmiskonar stuðningur verið í boði vegna kaupa og reksturs rafmagnsbíla og tengiltvinnbíla, en Bjarni segir nú komið að því að draga slíkan stuðning til baka.

Tekjur ríkisins af bifreiðum lækkað mikið síðasta áratug

Bjarni kynnti í morgun nýja fjármálaáætlun fyrir 2023-2027 og kom þá meðal annars inn á þessi mál. Benti hann á að frá árinu 2012 hefðu eigendur rafmagns- og tengiltvinnubíla fengið 25 milljarða í skattstyrki vegna kaupa á slíkum bílum. Til viðbótar kæmu inn litlar tekjur vegna notkunar þessara bíla af vegakerfinu, en slíkt hefur lengi vel komið í gegnum skatta á bensín og olíu.

Bjarni Benediktsson á kynningarfundinum í morgun.
Bjarni Benediktsson á kynningarfundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benti Bjarni á að frá árinu 2010 hefðu vörugjöld á hverja innflutta fólksbifreið, á verðlagi ársins 2021, lækkað úr 620 þúsund krónum niður í 239 þúsund. Þá væri væru tekjur af bensín- og olíugjaldi á hverja bifreið í umferð nú um 75 þúsund að meðaltali, en hefðu verið 128 þúsund fyrir rúmlega áratug síðan. Að lokum væri bifreiðagjald á hverja bifreið nú um 28 þúsund samanborið við 42 þúsund árið 2010.

„Við tekur gamli veruleikinn í framlögum til vegamála“

„Þessi mikli stuðningur við orkuskiptin er smám saman að fjara út og við tekur gamli veruleikinn í framlögum til vegamála,“ segir Bjarni og bætir við að ríkið þurfi smám saman að endurheimta tekjur ríkisins af ökutækjum í umferð. „Mér fannst lítið fara fyrir því að menn áttuðu sig á því hversu umfangsmikil stuðningskerfi við vorum með fyrir orkuskiptin.“

Bjarni hefur áður viðrað hugmyndir um kílómetragjald og að endurskoðun á þessum tekjustofni sé í gangi. Spurður hvenær megi búast við þessum breytingum segir Bjarni að hann sjái fyrir sér að fyrstu kerfisbreytingarnar taki gildi strax á næsta ári. „En við viljum draga upp lengri framtíð og sjá þetta gerast í nokkrum skrefum. Til dæmis að rafmagnsbílar fari að borga af notkun á vegakerfinu. Við erum að skoða hvaða tækni væri best að styðjast við í þessum efnum,“ segir Bjarni.

„Fyrstu skrefin munu gerast á næsta ári,“ ítrekar Bjarni og segir að lykilspurningin í þessum breytingum sé að skoða í hvaða hlutfalli skattar á innflutning bifreiða til landsins eigi að vera á móti því sem gerist eftir að bíllinn er kominn til landsins og farinn að nota vegina.

mbl.is