„Au pair“ lýsti óviðunandi aðstæðum á íslensku heimili

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Hari

Filipseysk kona sem starfaði hér á landi sem „au pair“ fékk ákvörðun Útlendingastofnunnar um að afturkalla dvalarleyfi hennar fellda niður vegna óviðunandi aðstæðna.

Í úrskurði kærunefndar útlendingamála segir að ágreiningur á milli konunnar og vistfjölskyldu sinnar varðandi aðstæður og vinnufyrirkomulag hafi endað með því að vistmóðir heimilisins hafi gefið konunni úrslitakosti að annað hvort láta sig hafa aðstæðurnar, eða yfirgefa heimilið tafarlaust.

Kærandinn gerði það og fékk húsaskjól hjá vinkonu sinni sem var „au pair“ hjá annarri fjölskyldu, sem tók hana þá að sér eftir deilur við fyrri vistfjölskyldu.

Útlendingastofnun hafi þá afturkallað dvalarleyfi konunnar þar sem skilyrði fyrir dvalarleyfi væru ekki lengur uppfyllt og kærði konan þá málið.

Aðstæður hafi verið óviðunandi

„Áður en hún kom til landsins hafi hún nær eingöngu verið í samskiptum við vistmóður sem hafi m.a. tjáð henni að hún fengi sitt eigið herbergi. Þegar hún hafi komið til landsins hafi þó annað komið í ljós, ekki hafi verið um að ræða hefðbundið herbergi heldur litla geymslu sem ekki hafi verið hurð á heldur eins konar bráðabirgðatjald sem hægt hafi verið að sjá og heyra í gegnum. Þá hafi öll vistfjölskylda hennar gengið inn í herbergið í tíma og ótíma. Rætt hafi verið við kæranda um að vinna hennar myndi felast í umönnun barnanna og léttum heimilisstörfum. Annað hafi þó komið á daginn, hún hafi sinnt nær öllum hreingerningum í húsinu, þrifið bifreiðar fjölskyldunnar og unnið í fyrirtæki þeirra,“ segir í úrskurðinum.

Upplifði aðstæðurnar sem óviðunandi

„Ljóst er að í síðari hluta júlímánaðar 2021 var það upplifun kæranda að aðstæður hennar á heimili þáverandi vistfjölskyldu hennar væru óviðunandi.“

„Af gögnum málsins er ljóst að kærandi dvelst nú hjá nýrri vistfjölskyldu en vistaskiptin voru samkvæmt gögnum málsins skráð frágengin í málaskrá Útlendingastofnunar hinn 23. ágúst 2021,“ segir í útskurði kærunefndar útlendingamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert