Boðar breytingu á skattaumhverfi frjálsra fjölmiðla

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og viðskiptaráðherra, boðaði breytingu á skattaumhverfi frjálsra fjölmiðla í sérstakri umræðu um stöðu fjölmiðla sem fór fram á þingi fyrr í dag.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksmaður Viðreisnar, stofnaði til umræðunnar og beindi spurningum sínum um samkeppnisstöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði og aðgerðir stjórnvalda í þeim efnum til Lilju.

Ræða þurfi skattlagningu erlendra miðla

Sagði Hanna það vera nauðsynlegt að ræða skattlagningu erlendra miðla og stöðu RÚV á auglýsingamarkaði samhliða stuðningi við einkarekna fjölmiðla.

„Þingmál sem varða fjölmiðlamarkaðinn eru yfirleitt lögð fram án tillits til heildarmyndarinnar. Útkoman verður bútasaumskennt rekstrarumhverfi. Ég hef saknað þess að ríkisstjórnin hafi rætt þessa heildarmynd,” sagði Hanna.

Nýlega lagði Sigmar Guðmundsson, samflokksmaður Hönnu, fram þingsályktunartillögu um heildarendurskoðun rekstrarumhverfis fjölmiðla, þar sem þingið myndi fela ráðherranum að skipa starfshóp um heildræna endurskoðun á fjölmiðlamarkaði á Íslandi, með það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu fjölmiðla, óháð uppruna og eignarhalds þeirra.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar. mbl.is/Hari

„Algjör óþarfi að stofna enn eina nefndina“

Lilja sagði Viðreisn þó ekki hafa getað stutt einkarekna fjölmiðla á síðasta þingi því hann hafi enn og aftur verið í „pólitískum leik“. Þá sagðist hún ekki vera á því að það eigi að stofna „enn eina nefndina“ eins og þingflokkur Viðreisnar leggur til.

„Þetta er allt til. Það er algjör óþarfi að stofna enn eina nefndina um sjálfsagða hluti. Það er að fara af stað á vegum fjármálaráðherra að breyta þessu skattalega umhverfi og jafna stöðuna. Við höfum farið yfir það og munum tilkynna um þær niðurstöður og munum fara í samanburðarrannsókn á því hvernig þetta kemur til með að líta út,“ sagði Lilja.

Rekstrarumhverfið sem hugnast Lilju best, að eigin sögn, er í Danmörku.

„Í fyrsta lagi eru Danir með öflugt ríkisútvarp en eru að endurskoða það umhverfi og ríkisútvarpið þeirra er ekki á auglýsingamarkaði. Í öðru lagi eru Danir með betra skattalegt umhverfi sem ég tel að við eigum að innleiða og talaði fyrir á síðasta kjörtímabili,“ sagði Lilja.

Þar að auki haldi Danir úti sambærilegum stuðningi við einkarekna miðla eins og íslensk stjórnvöld innleiddu á síðasta tímabili, að sögn Lilju.

„Það er miður að umræðan hafi farið í pólitískar skotgrafir þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert