Þjóðarleikvangur í algjörum forgangi

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. Ljósmynd/HMS

„Það er algerlega skýrt af hálfu þessarar ríkisstjórnar að við erum að setja það sem lýtur að þessari þjóðarhöll og þjóðarleikvöngum í forgang.“

Þetta sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sem einnig fer með íþróttamál, þegar hann svaraði óundirbúinni fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um hvort hvorki væri að marka kosningaloforð né yfirlýsingu í stjórnarsáttmála um að nýr þjóðarleikvangur fyrir inniíþróttir myndi rísa á kjörtímabilinu. 

Hann bætti því við að fyrir lægi að vinna þurfi grunnvinnu varðandi útfærslu og að stafnadi stýrihópi um þjóðarleikvang væri falin samskipti við borgina og íþróttahreyfinguna. 

Næstu skref kynnt á næstu dögum 

„Sú vinna er í fullum gangi. Ég reikna með því að öðrum hvorum megin við þessa helgi munum við kynna hvernig við sjáum fyrir okkur skrefin stigin á þessu kjörtímabili hvað það snertir,“ sagði hann. 

„Það er því ekkert til í fullyrðingum háttvirts þingmanns um að verið sé að svíkja þjóðina um þjóðarleikvanga eða þjóðarhallir og að ríkisstjórnin ætli sér ekki að standa við það. Því hefur verið svarað og algerlega skýrt að það er ætlunin,“ hélt Ásmundur áfram og sagði ekki hafa staðið á samvinnu sinni og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra til þessa að klára mál sín á milli sem samið hefur verið um í stjórnarsáttmála.

„Það eru þau verkefni sem framkvæmdavaldið er með á sinni könnu, það eru þau verkefni sem ég er með sem ráðherra og það eru þau verkefni sem ég ætla að ljúka á þessu kjörtímabili,“ sagði Ásmundur að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert