Á annað þúsund manns taka þátt í heræfingu

Freyja, varðskip Landhelgisgæslunnar.
Freyja, varðskip Landhelgisgæslunnar.

Vel á annað þúsund manns á landi og sjó taka þátt í sameiginlegu varnaræfingunni Norður-Víkingi sem hefst á morgun og stendur til 14. apríl.

Á upplýsingafundi fjölmiðla í utanríkisráðuneytinu í dag kom fram að varnaræfingin verður með sama sniði og átti að vera árið 2020, nema að flugher Bandaríkjanna tekur ekki þátt eins og stóð til. Ekki er æfingin því hugsuð sem sérstök viðbrögð við stríðsrekstri Rússa í Úkraínu.

Æfingin á forsendum íslenskra stjórnvalda

Tilgangur æfingarinnar er að æfa fyrstu viðbrögð í aðstæðum sem gætu komið upp hér á landi vegna árása eða náttúruhamfara.

Mikilvægt er að stofnanir hér á landi, eins og Landhelgisgæslan, og herir samstarfsríkja kunni að vinna saman ef aðstæður yrðu þannig að Íslendingar þyrftu að fá hernaðarlega aðstoð, að sögn utanríkisráðuneytisins, sem segir æfinguna alfarið á forsendum íslenskra stjórnvalda.

Áætlaður kostnaður 50 milljónir

700 manns á landi og að minnsta kosti annað eins á sjó munu taka þátt í æfingunni. Herskip frá sjóherjum Bandaríkjanna, Frakklands, Þýskalands, Bretlands og Noregs verða ýmist við strendur eða í höfn á Íslandi á næstu tólf dögum.

Áætlað er að æfingin muni kosta íslenska ríkið í kringum 50 milljónir króna sem fara aðallega í að greiða þeim fyrir aukavaktir sem koma að æfingunni og fyrir gistikostnaði.

Æfingin verði á tveggja ára fresti

Æfingin sem stóð til að hafa hér fyrir tveimur árum síðan var frestað vegna heimsfaraldursins og verður því haldin í fyrsta skipti síðan árið 2011, en fyrst var hún haldin fyrir 40 árum síðan.

Stefnt er á að hún verði héðan í frá haldin á tveggja ára fresti við og á Íslandi en Bandaríkjunum og öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins verður boðið þátttaka, rétt eins og núna.

mbl.is