Fallist á endurupptökubeiðni Guðmundar

Málið Guðmundar fer aftur fyrir Hæstarétt.
Málið Guðmundar fer aftur fyrir Hæstarétt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Endurupptökudómur hefur fallist á beiðni Guðmundar Andra Ástráðssonar um endurupptöku á máli sem var dæmt í Hæstarétti árið 2018.

Með dómi Hæstaréttar í maí árið 2018 var staðfestur dómur Landsréttar frá 23. mars sama ár þar sem staðfestur var dómur Héraðsdóms Reykjaness frá 23. mars 2017. Þar var Guðmundur sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana-og fíkniefna. Var hann dæmdur til 17 mánaða fangelsisvistar og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð.

Dóm í fyrrgreindu máli Guðmundar í Landsrétti skipuðu þrír dómarar, þar á meðal Arnfríður Einarsdóttir. Í kjölfar dóms Hæstaréttar kærði Guðmundur meðferð málsins til Mannréttindadómstóls Evrópu. MDE komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu árið 2017 við skipun Arnfríðar.

„Telja verður að skilyrði a-liðar 228. gr. laga nr. 88/2008 séu til staðar í máli endurupptökubeiðanda, enda má gera ráð fyrir því að það hefði skipt verulega miklu máli fyrir niðurstöðu málsins ef dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli  endurupptökubeiðanda gegn Íslandi í máli nr. 26374/18 12. mars 2019 eða eftir atvikum dómur yfirdeildar sama dómstóls 1. desember 2020, hefðu legið fyrir áður en dómur var kveðinn upp í Hæstarétti í máli því sem hér er krafist endurupptöku á,“ segir meðal annars í niðurstöðu Endurupptökudóms.

mbl.is