FÍB berst gegn holuplágunni

Starfsmaður FÍB prófaði nýja holufyllingarefnið í gær.
Starfsmaður FÍB prófaði nýja holufyllingarefnið í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slitlag á vegum og götum er víða mjög illa farið eftir erfiðan og snjóþungan vetur. Víða eru holurnar vel sjáanlegar og sumar þeirra djúpar og hættulegar. Holurnar hafa valdið verulegu tjóni á fjölda ökutækja og hefur Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, ákveðið að grípa sjálft til aðgerða.

,,Það er óþolandi að vegfarendum sé boðið upp á þetta laskaða vegakerfi enn eitt árið,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, við Morgunblaðið, en félagið hyggst bjóða nýja þjónustu við að fylla í holurnar.

Efni blandað á staðnum

FÍB Aðstoð er nú komið með sérútbúinn bíl með tækjum og búnaði af nýjustu gerð til að fylla í holuskemmdir. Um er að ræða tæki sem blandar á staðnum saman sérvöldum steinefnum og svonefndum fjölliðu epoxy-fyllingarefnum, sem fengin eru frá systursamtökum FÍB á Norðurlöndunum. Viðgerðarefnið hefur þá sérstöðu að það er sólgult á lit sem Runólfur segir auka enn á öryggi vegfarenda þar sem vegbótin veki ökumenn enn frekar til vitundar um að aka með gát og vera viðbúnir hugsanlegum skemmdum í slitlaginu.

„Það er ánægjulegt að félagið geti boðið upp á þessa tækni, sem mun vonandi bæta úr því ófremdarástandi sem mætir vegfarendum á vegum landsins. Úrbóta er þörf strax og með þessu inngripi vilja samtök vegfarenda vekja yfirvöld af værum blundi,“ segir Runólfur ennfremur, en nánar er fjallað um þessa þjónustu á vef félagsins, fib.is.

FÍB verður með kynningu á þessari nýju tækni við skrifstofur félagsins við Skúlagötu 19 í Reykjavík frá kl. 9-10, þar sem hægt verður að sjá hvernig þetta efni virkar í raun. Í kjölfarið fer það í notkun þar sem eftir því verður óskað. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert