Bjartsýnn á að frumvarpið verði samþykkt

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra er bjartsýnn á að frumvarp um endurskoðun útlendingalaga verði samþykkt á Alþingi enda hafi náðst samstaða um málið meðal ríkisstjórnarflokkanna. Gerir hann sér vonir um að frumvarpið verði afgreitt í vor. Hann telur þó ekki ólíklegt að það mæti andstöðu á þinginu enda er málefnið umdeilt. 

„Það er engin ástæða til að ætla annars en að þetta verði tekið til ítarlegrar umræðu í þinginu en það hefur náðst samstaða meðal ríkisstjórnarflokkanna um að afgreiða málið með þessum hætti,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Grisjun til að létta álaginu

Meðal helstu breytinga sem kveðið er á um í frumvarpinu er að ef um­sækj­andi hef­ur þegar fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki er málið ekki tekið til efn­is­meðferðar í sam­ræmi við evr­ópskt sam­starf um að ein­stak­ling­ar hljóti alþjóðlega vernd í aðeins einu ríki. Á þessu eru þó undantekningar til að mynda ef vernd viðkomandi er ekki virk. Þá má ekki senda fólk þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu.

„Við erum að færa þessa löggjöf nær því sem gildir í löndunum í kringum okkur þó við séum ekki að ganga alla leið miðað við þau að öllu leyti. [...] Þetta er gert til þess að verndarkerfið geti með sómasamlegum hætti afgreitt þær gríðarlegu umsóknir sem okkur eru að berast,“ segir Jón.

Hann segir yfirvöld þegar hafa lagt sig fram við að styrkja kerfið en að það séu samt sem áður takmörk hvað við getum ráðið við enda eru Íslendingar ekki mjög fjölmenn þjóð.

Bitni ekki á úkraínskum flóttamönnum

Metfjöldi flóttamanna streymir nú til landsins sem má aðallega rekja til stríðsins í Úkraínu. Að sögn Jóns munu breytingarnar ekki koma til með að bitna á úkraínskum flóttamönnum og afstaða ríkisstjórnarinnar sé skýr í þeim málum.

„Við erum ekkert að þyngja kerfið fyrir þá sem eru raunverulega í þeirri stöðu að þurfa á því að halda. Miklu frekar erum við að liðka kerfið fyrir þeim og bæta málsmeðferðina þannig að þeirra mál taki skemmri tíma.“

Þá segir hann mikilvægt að hægt verði að nýta aðstöðuna og það fólk sem er í þjónustu við þá einstaklinga sem hér eru í ólögmætri dvöl í dag, til þess að hægt sé að sinna þeim fjölda sem hingað er að koma. 

30 daga hámark

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breyt­ing­ar til að skýra frek­ar þau rétt­indi sem út­lend­ing­um, sem lög­um sam­kvæmt ber að fara af landi brott, stend­ur til boða. Þannig munu þeir njóta áfram fullra rétt­inda þar til þeir hafa farið en að há­marki í 30 daga frá end­an­legri ákvörðun stjórn­valda. Frá þeim tíma­fresti falla öll rétt­indi þeirra niður.

Jón segir undanþágur frá þessu ákvæði og að ekki verði heimilt að fella niður réttindi ákveðinna einstaklinga, til að mynda þeirra sem glíma við veikindi, þurfa á stuðningsþörfum að halda, börn, barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra. 

Valdbeiting við sýnatöku ekki útilokuð

Samkvæmt nýja frumvarpinu verður lögreglu tímabundið heimilt að færa útlendinga í PCR-próf ef á þarf að halda, gildir ákvæðið til 30. júní 2023. Svipar heimildin til þeirrar sem lögregla hefur þegar hún tekur fólk sem er grunað um akstur undir áhrifum, að sögn Jóns.

„Það hefur borið mikið á því að útlendingar sem hafa fengið hér fulla málsmeðferð og eru í ólögmætri dvöl í landinu, að þeir neita að fara í PCR-próf sem er krafist í móttökulandinu. Þannig að við höfum verið í vandræðum með að fá fólk til að fara úr landi.“

Aðspurður segir Jón valdbeitingu við sýnatöku ekki útilokaða en aftur á móti sýni reynsla frá öðrum þjóðum, þar sem þetta ákvæði er í gildi, að slíkt komi ekki fyrir nema í algjörum undantekningartilfellum. 

„Um leið og heimildin er fyrir hendi áttar fólk sig á því að það getur ekki hafnað því [að fara í sýnatöku].“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert