Andlát: Aðalsteinn Aðalsteinsson, bóndi og veiðimaður

Aðalsteinn Aðalsteinsson, bóndi og hreindýraveiðimaður frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal, lést á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 1. apríl, níræður að aldri.

Hann fæddist á Vaðbrekku 26. febrúar 1932 og var sonur hjónanna Aðalsteins Jónssonar (f. 1895, d. 1983) og Ingibjargar Jónsdóttur (f. 1901, d. 1987). Auk Aðalsteins eignuðust þau Guðrúnu (f. 1923, d. 1999) húsmæðrakennara, Jóhönnu (f. 1924, d. 2007) fv. bæjarfulltrúa, Guðlaugu Ingibjörgu (f. 1925, d. 1991) húsfreyju, dr. Jón Hnefil (f. 1927, d. 2010), guðfræðing og þjóðfræðing, dr. Stefán (f. 1928, d. 2009) búfræðing, Sigrúnu (f. 1930, d. 2015) húsvörð, Ragnhildi (f. 1934, d. 1939), Hákon hreppstjóra og skáld (f. 1935, d. 2009), dr. Ragnar Inga íslenskufræðing (f. 1944). Auk þeirra ólu þau upp Birgi Þór Ásgeirsson (f. 1939, d. 2012) bónda og dr. Kristján Jóhann Jónsson (f. 1949) bókmenntafræðing.

Aðalsteinn varð búfræðingur frá bændaskólanum á Hólum 1952 og var bóndi á Vaðbrekku frá 1955 til 2014, einn eða í félagi við aðra. Hann kvæntist Sigríði Sigurðardóttur (f. 1937) þann 8. júní 1958. Þau eignuðust sex börn: Sigurð (f. 1957) hreindýraleiðsögumann, Ingibjörgu (f. 1959) sjúkraliða, Aðalstein (f. 1960) sjúkraflutningamann, Snorra (f. 1962) starfsmann Alcoa, Margréti (f. 1964) móttökuritara og Ragnhildi (f. 1975), blaðamann og ljósmyndara. Stórfjölskylda Aðalsteins telur 103 í dag.

Aðalsteinn var sauðfjárbóndi en sinnti um leið félagsmálum. Hann var á meðal stofnenda Landssamtaka sauðfjárbænda og sat um skeið í stjórn, vann við ullarmat um árabil og stýrði sláturhúsi um tíma.

Aðalsteinn var fyrsti starfsmaður hreindýraráðs og vann þar í tíu ár. Sem starfsmaður hreindýraráðs kom hann á breytingum í nýtingu hreindýra. Hann stundaði hreindýraveiðar í 70 ár og var um árabil leiðsögumaður veiðimanna.

Útför Aðalsteins verður gerð frá Egilsstaðakirkju 19. apríl kl. 14.00.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert