Dæmdur fyrir hótanir og birta vændisauglýsingu

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi m.a. útbúið, …
Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi m.a. útbúið, birt og dreift, í heimildarleysi og gegn vilja konunnar, Facebook-aðgang og vændisauglýsingu í hennar nafni. AFP

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfelldar ærumeiðingar og hótanir í gerð fyrrverandi sambýliskonu sinnar. Maðurinn hótaði henni m.a. ítrekað lífláti og þá útbjó hann Facebook-aðgang og vændisauglýsingu í hennar nafni. 

Fram kemur í dómnum, sem féll í gær, að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi ákært manninn 15. september í fyrra, en ákæran er í tveimur liðum. Í fyrsta lagi fyrir stórfelldar ærumeiðingar með því að hafa á tímabilinu frá nóvember 2019 til desember 2020 útbúið, birt og dreift, í heimildarleysi og gegn vilja konunnar, Facebook-aðgang og vændisauglýsingu í hennar nafni. Þar kom fram nafn konunnar, mynd af henni, símanúmer hennar og heimilisfang. 

Í öðru lagi fyrir hótanir í garð hennar með því að hafa á tímabilinu frá nóvember 2019 til 8. desember 2020, ítrekað hótað henni m.a. lífláti og að eyðileggja líf hennar.

„Það stoppar mig ekkert“

Maðurinn hótaði konunni með því að senda henni skilaboð og með því að hringja í hana. Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi m.a. sagt: „Þú mátt alveg búast við mér í heimsókn. Það stoppar mig ekkert þegar ég fer í ham. Ég næ þér hafðu engar áhyggjur.

„...Njóttu þess sem þú átt eftir. Ég mun njóta mín alveg í botn, þegar ég hitti þig. Mundu það. ÉG KEM.“

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi skýlaust játað sakargiftir í málinu. Tekið er fram að hann hafi ekki áður sætt refsingu. Þótti hæfilegt að dæma manninn í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. 

mbl.is