Sala á Ivermectin margfaldaðist í Covid

Sala á lyfinu Ivermectin hefur stóraukist hér á landi.
Sala á lyfinu Ivermectin hefur stóraukist hér á landi. Ljósmynd/Aðsend

Sala á sníkjudýralyfinu Ivermectin hefur stóraukist hér á landi frá því að heimsfaraldur Covid-19 hófst. Á síðasta ári voru hátt í hundrað pakkningar af lyfinu keyptar sem jafnast á við tvöfalda sölu þess samanlagt árin 2015 til 2019.

Þetta má lesa úr svari Sjúkratrygginga Íslands við fyrirspurn mbl.is.

Á Íslandi eru tvö lyf sem inni­halda Iver­mect­in á markaði og eru þau bæði lyf­seðils­skyld. Getgátur hafa verið uppi um að Ivermectin, sem á að nota við sníkjudýrasýkingum, komi að góðum notum við meðhöndlun á Covid-19 sjúkdómnum.

Skortur er á rannsóknum sem styðja þá tilgátu og mæla Lyfjastofnun og Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) eindregið gegn notkun lyfsins í þeim tilgangi.

34 keyptu lyfið á síðasta ári

Á árunum 2015 til 2019 var seldur fjöldi pakkninga af Ivermectin á Íslandi á bilinu sex til þrettán stykki á hverju ári og hafa kaupendur lyfsins verið á bilinu þrír til átta talsins. 

Þegar heimsfaraldur Covid-19 hófst ríflega tvöfaldaðist salan á lyfinu milli ára, fór hún úr 12 pakkningum árið 2019 yfir í 34 árið 2020.

Strax á næsta ári tók salan enn meira stökk og fór fjöldi keyptra pakkninga upp í 94 og voru kaupendurnir orðnir 35.

Það sem af er liðið ári hafa 36 pakkningar verið seldar.

mbl.is