Gler verður einnig endurunnið

Fulltrúar fyrirtækjanna við undirritun samningsins.
Fulltrúar fyrirtækjanna við undirritun samningsins. Ljósmynd/Endurvinnslan

Gler verður flutt út frá Íslandi til endurvinnslu síðar á árinu og verður það í fyrsta skipti sem gler verður endurunnið.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Endurvinnslunni í dag. Samningar hafa tekist með Íslenska gámafélaginu og Reykjaneshöfn um að safna saman glerflöskunum og flytja þær út til endurvinnslu. 

„Þar með verða nánast allar drykkjaumbúðir í íslenska skilakerfinu komnar inn í hringrásarhagkerfið. Áldósir og plastflöskur hafa þegar verið endurunnar meira eða minna frá stofnun Endurvinnslunnar hf. árið 1989,“ segir meðal annars í tilkynningunni. 

Undirbúningur fyrir endurvinnslu glers hefur staðið yfir um hríð en verkefnið er kostnaðarsamt. 

„Á síðasta ári ákváðu framleiðendur drykkjarvara að taka frumkvæði í endurvinnslu glers. Í því skyni samþykktu þeir auknar álögur á glerflöskur til að unnt yrði að endurvinna umbúðirnar. Endurvinnslan hf. hóf í framhaldinu undirbúning að útflutningi glersins til endurvinnslu. Ferlið reyndist flókið og óvæntar hindranir komu á daginn en loks náðust samningar við Íslenska gámafélagið og Reykjaneshöfn um að safna saman glerflöskunum og flytja þær út til endurvinnslu. Á næstunni verður síðan lokið samnningum við endurvinnsluaðila ytra.

Ferlið verður með þeim hætti að gleri er safnað saman í Helguvík og það síðan lestað þaðan í skip. Gert er ráð fyrir því að alls fari um 3.000 tonn af gleri með hverri ferð en áætlað er að söfnun glers fyrir útflutning hefjist í júní/júlí á þessu ári. Í fyrstu verða einungis glerumbúðir af Suður- og Vesturlandi fluttar út til endurvinnslunnar en það magn nemur um 90% af öllum drykkjarumbúðum úr gleri sem skilað er á landinu.

Mjög kostnaðarsamt er að endurvinna gler og því er vert að benda á að Endurvinnslan tekur því miður ekki við gleri nema í gegn um skilakerfið. Því gleri sem er á ábyrgð sveitarfélaga þurfa viðskiptavinir að skila á móttökustað viðkomandi sveitarfélags,“ segir einnig í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert