Borgarráð samþykkti í dag tillögu um stækkun á Hagaskóla samhliða endurnýjun á húsnæðinu og er áætlaður framkvæmdatími þrjú ár.
Nemendur í tveimur árgöngum hafa stundað nám í öðru húsnæði frá því fyrir áramót eftir að mygla greindist í aðalbyggingu og vesturálmum skólans. Endurnýjun á aðalbyggingu stendur nú yfir en vesturálmurnar verða rifnar.
Leyfi var gefið til að hefja hönnunarvinnu á nýrri byggingu sem mun rísa á grunni vesturálmanna. Þær eru samanlagt um 880 fermetrar en áætlað er að stærð nýrrar byggingar verði um 3.100 fermetrar.
Áætlaður heildarkostnaður er 4.600 milljónir króna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Reiknað er með að endurnýjun aðalbyggingar ljúki að fullu sumarið 2023.
Gert er ráð fyrir að nemendur úr tveimur árgöngum hefji næsta skólaár í Ármúla 28-30 til bráðabirgða en að öll kennsla muni fara fram í Hagaskóla næsta vor.
Skólinn er einn sá fjölmennasti í Reykjavík en þar eru yfir 600 nemendur í þremur árgöngum. Framundan er mikil uppbygging í hverfinu og gert er ráð fyrir að nemendum fjölgi í allt að 700 á næstum árum.