Koma gæludýra frá Úkraínu undirbúin

Spurt hefur verið um innflutning hunda og katta frá Úkraínu. …
Spurt hefur verið um innflutning hunda og katta frá Úkraínu. Dýrin fara í einangrun við komu til landsins. Mynd tekin í Kattholti. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Matvælaráðuneytið vinnur að því að útvega aðstöðu svo hægt verði að setja gæludýr flóttafólks frá Úkraínu í einangrun eftir komu til landsins. Reiknað er með að málið verði leyst á næstu dögum. Að sögn ráðuneytisins mun ríkið væntanlega standa straum af kostnaði við einangrunina líkt og aðra aðstoð við flóttafólkið. Matvælaráðherra ákvað að veita undanþágu frá gildandi banni við innflutningi gæludýra frá Úkraínu að uppfylltum skilyrðum, svo fólk geti haft gæludýrin með sér.

„Það þarf sér einangrunaraðstöðu fyrir þessi dýr,“ segir Hrund Hólm, dýralæknir og deildarstjóri hjá Matvælastofnun (MAST). Ástæðan er sú að dýr frá Úkraínu hafa ekki farið í gegn um sama undirbúningsferli og almennt gildir um dýr sem flutt eru inn. Rætt hefur verið við tvær einangrunarstöðvar fyrir dýr sem eru í rekstri, önnur í Höfnum og hin rétt hjá Hellu.

Þetta mun kalla á lengri einangrun dýranna en venjulega gildir um dýrainnflutning. Hundaæði fyrirfinnst í Úkraínu. Þurfi að bólusetja við því er gerð mótefnamæling mánuði seinna til að skoða hvort bólusetning tókst. Þá tekur við bið því meðgöngutími hundaæðis getur verið margar vikur. Sömu reglur gilda hér og í löndum ESB varðandi innflutning frá þriðju ríkjum sem ekki eru á lista og þar sem hundaæði er til staðar. Einnig eru hér viðhafðar miklar varnir gegn því að dýrasjúkdómar og ýmis sníkjudýr berist til landsins. Tiltölulega lítið er um dýrasjúkdóma hér á landi.

MAST hefur fengið töluvert af fyrirspurnum um innflutning hunda og katta frá Úkraínu og þær hafa verið skráðar niður. Hrund segir að um leið og málin skýrast verði haft samband við fyrirspyrjendur. Oft er um að ræða fólk hér á landi sem er að aðstoða flóttafólk sem er að undirbúa komu sína. Eins hafa komið fyrirspurnir frá samtökum og sendiráðum. MAST hefur ekki upplýsingar um fjölda dýranna. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert