Braut gegn sambýliskonu og stjúpdóttur

Maðurinn ógnaði ítrekað lífi konunnar, heilsu og velferð með líkamlegu …
Maðurinn ógnaði ítrekað lífi konunnar, heilsu og velferð með líkamlegu og andlegu ofbeldi, að því er segir í dómnum. Ljósmynd/Colourbox

Landsréttur hefur sakfellt karlmann fyrir brot í nánu sambandi gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni og stjúpdóttur yfir rúmlega tveggja ára tímabil. Maðurinn var dæmdur í 12 mánaða fangelsi, að hluta til skilorðsbundið, og gert að greiða þeim samtals 1,6 milljónir króna í miskabætur. 

Maðurinn var í Héraðsdómi Reykjaness í fyrra dæmdur í 9 mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundið, og því þyngir Landsréttur dóminn um þrjá mánuði. 

Fram kemur, að maðurinn hafi ítrekað ógnað lífi konunnar, heilsu og velferð með líkamlegu og andlegu ofbeldi. Hann hafi ógnað henni, öskrað á hana, niðurlægt hana með orðum og textaskilaboðum, gripið í hana og hrist hana.

Hann var einnig sakaður um að hafa ítrekað ógnað heilsu stjúpdóttur sinnar og velferð með andlegu ofbeldi og ofbeldi gegn móður hennar sem stúlkan varð vitni að.

Í dómi Landsréttar kom fram að 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væri sérákvæði um ofbeldi gagnvart börnum og öðrum í nánu sambandi og með hærri refsimörk en 98. gr. barnaverndarlaga og tæmdi því sök gagnvart nefndu ákvæði barnaverndarlaga. Með brotunum rauf maðurinn skilorð dóms frá 5. júlí 2019.

Jafnframt voru brot hans að hluta framin áður en sá dómur gekk og bar því að dæma honum hegningarauka vegna þeirra brota sem svo háttaði til um. Var fyrri dómur því tekinn upp og manninum gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin. 

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot hans voru endurtekin og alvarleg með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á heilsu og velferð brotaþola. Maðurinn átti sér engar aðrar málsbætur en að hafa játað skýlaust þau brot sem tilgreind voru í ákæru.

Var refsing hans því ákveðin fangelsi í 12 mánuði en til frádráttar kom nánar tilgreind gæsluvarðhaldsvist. Þá var honum gert að greiða miskabætur til fyrrverandi sambýliskonu sinnar sem þóttu hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna en bætur til stjúpdóttur sinnar 600.000 krónur.

mbl.is