Mótmæli á Austurvelli vegna sölunnar

Mótmælin eru fyrirhuguð á Austurvelli.
Mótmælin eru fyrirhuguð á Austurvelli. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Mótmæli vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka eru fyrirhuguð á Austurvelli á morgun, laugardag. Þar stíga á stokk Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor, Ásta Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokks Íslands, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

„Besta leiðin til að ræna banka er að eiga banka. Mætum og mótmælum bankaráninu á laugardaginn kl. 14 á Austurvelli. Við mótmælum því að almannaeigur séu seldar á afslætti gegn vilja þjóðarinnar. Skoðanakannanir hafa sýnt að almenningur er á móti sölu bankanna. Stjórnmálamenn eiga að virða lýðræðislegan vilja þjóðarinnar,“ segir í tilkynningu.

„Það hefur sífellt verið augljósara að Bjarni Benediktsson og fjölskylda, og aðrir ólígarkar Íslands, vilji komast aftur yfir bankana. Glitnisskjölin afhjúpuðu hvernig Engeyingar og núverandi fjármálaráðherra fóru með Glitni/Íslandsbanki eins og sinn persónulega sparibauk og fengu milljarða lán til að kaupa upp íslensk fyrirtæki fyrir hrun og milljarða afskriftir eftir hrun. Fjölskylda Bjarna átti leiðandi hluti í Íslandsbanka fram til vorsins 2007 og fékk 130 milljarða í afskriftir,“ segir þar einnig.

„Síðast þegar bankarnir voru einkavæddir kostaði það þjóðina miklar hörmungar en fall bankanna var þriðja stærsta gjaldþrot sögunnar. Núna eru stjórnmálamenn þjóðarinnar langt komnir með að endurtaka leikinn þvert á vilja kjósenda.

Við krefjumst þess að þessum gjafagjörningi verði rift og stjórnmálafólk stöðvi einkavæðingu bankakerfisins. Bankar eiga að þjóna fólki en ekki aðeins fjármagni. Heildar endurskoðun bankakerfisins með hagsmuni almennings að leiðarljósi, samfélagsvæðing bankakerfisins, og aðgreining viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi er forsenda þess að hægt sé að skapa sátt og traust um fjármálakerfið.“

Undir tilkynninguna skrifa fyrir hönd skipuleggjenda mótmælanna þau Hallfríður Þórarinsdóttir, Andri Sigurðsson og Kári Jónsson.

mbl.is