Svekkt þegar hún sá lista kaupenda

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ég verð að viðurkenna að ég er svekkt þegar ég les lista yfir þá sem hafa fengið að kaupa í þessu ferli. Ég stóð í þeirri meiningu að við værum fyrst og fremst að leita eftir stórum og öflugum fjárfestum sem ætluðu að vera þarna til lengri tíma,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi, þar sem hún fjallaði um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Bryndís fór yfir það að hún sé mikill stuðningsmaður þess að selja bankann og finnst mikilvægt að ríkið eigi ekki tvo af þremur viðskiptabönkum í landinu. Henni þótti einnig takast vel til í fyrsta útboðinu þegar stór hluti Íslendinga hafði tækifæri til að setja sparnað sinn í fjárfestingu í Íslandsbanka.

Nagar sjálfa sig í handarbökin

Bryndís sagði að þegar hún les gögnin átti hún sig á því að ekki standi berum orðum að leitað sé eftir stórum og öflugum fjárfestum til lengri tíma.

Ég naga mig sjálfa í handarbökin fyrir að hafa ekki spurt þeirrar spurningar og ég ímynda mér að við séum fleiri í þessum sal sem höfum gert það. Ég er engu að síður sannfærð um að það sé rétt ákvörðun að selja Íslandsbanka,“ sagði Bryndís.

Að hennar mati var það hárrétt ákvörðun hjá Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra að óska eftir því að Ríkisendurskoðun geri úttekt á því hvort sala á hlut­um rík­is­ins í Íslandsbanka hafi sam­rýmst lög­um og góðum stjórn­sýslu­hátt­um.

„Þegar við seljum ríkiseignir þá þarf það ávallt að vera í gagnsæju og sanngjörnu og réttlátu ferli og því miður höfum við ekki fengið svör við öllum okkar spurningum. Það er því nauðsynlegt að fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og þingið allt fái svar við þeim spurningum sem út af standa,“ sagði Bryndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert