Gleðidagur í Hafnarfirði

St Jósefsspítali hefur gengið í endurnýjun lífdaga að utan sem …
St Jósefsspítali hefur gengið í endurnýjun lífdaga að utan sem innan. mbl.is/Árni Sæberg

Ný aðstaða fyrir þjónustu og starfsemi Alzheimersamtakanna og Parkinsonsamtakanna var síðdegis í gær vígð á 3. hæð gamla St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði. Þar hafa félagar í Oddfellowreglunni unnið hörðum höndum síðan í ársbyrjun 2021 að endurgerð um 530 fermetra húsnæðis, sem samtökin skipta með sér.

Framlag Oddfellow nemur um 180 milljónum króna og mun ganga upp í leigu á húsnæðinu til næstu 15 ára. Viðstödd vígsluna voru Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, fulltrúar Oddfellow og verktaka.

Fyrir um tveimur árum settist Steindór Gunnlaugsson, formaður stjórnar Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, niður með með Vilborgu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Alzeimersamtakanna, og hugmyndin fæddist um að stofna miðstöð fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma, sem væri í ætt við Ljósið á Langholtsvegi. Rættist sú hugmynd með aðkomu Hafnarfjarðarbæjar, sem hafði stofnað Lífsgæðasetrið á 2. hæð hússins. Seinna komu Parkinsonsamtökin inn í myndina og ákveðið var að endurgera alla 3. hæðina. Húsnæði Alzheimersamtakanna nefnist Seiglan og Taktur er heitið á aðstöðu Parkinsonsamtakanna.

Öll verkstjórn framkvæmda var í höndum Magnúsar Sædals Svavarssonar byggingarmeistara og Péturs J. Haraldssonar húsasmíðameistara, félaga í Oddfellow. Þeir stjórnuðu verkinu frá upphafi, án þess að þiggja laun fyrir, og fengu til liðs við sig 110 sjálfboðaliða frá 15 bræðrastúkum, sem unnu í um 1.200 vinnustundir, auk aðkomu fjölda iðnmeistara og verktaka. Einnig lögðu margar stúkur til fé til kaupa á innanstokksmunum og húsbúnaði.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Frá vígslu húsnæðisins í gær, f.v. Pétur J. Haraldsson, húsasmíðameistari, …
Frá vígslu húsnæðisins í gær, f.v. Pétur J. Haraldsson, húsasmíðameistari, frá Oddfellow, Vilborg Jónsdóttir, formaður Parkinsonsamtakanna, Guðmundur Eiríksson, stórsír Oddfellow, Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna, og Steindór Gunnlaugsson, formaður stjórnar Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa. mbl.is/Árni Sæberg
Húsnæðið á 3. hæðinni í gamla St. Jósefsspítala hefur verið …
Húsnæðið á 3. hæðinni í gamla St. Jósefsspítala hefur verið tekið í gegn frá grunni. Hér er setustofa í húsnæði Alzheimersamtakanna í suðurenda hússins. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert