Óskadreifing á eignarhaldi bankans

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mbl.is/Óttar

Bankasýslan hefði mátt vinna betur að kynningu á verklaginu við sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, að mati Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Þá telur hann að endanleg úthlutun sé í ágætis samræmi við það sem lagt var upp með.

„Ég sé hins vegar á viðbrögðunum að þetta kemur mörgum á óvart.“

Umræða um það að í útboðinu hafi hlutur farið til „óæskilegra aðila sem séu komnir til að taka völdin“ standist ekki skoðun enda sé eignarhluti umræddra aðila ekki nema einn tvöhundrað og fimmtugasti af eignarhluta ríkisins.

Komast hjá markaðsröskun

Margar leiðir hafa verið farnar í gegnum tíðina við að losa um ríkiseignir en þessi leið hefur ekki verið farin áður. 

Sú aðferð að standa að útboði eftir lokun markaða fyrir fagfjárfesta, er engu að síður algengasta leiðin eftir að fyrirtæki hefur verið skráð á markað, að sögn Bjarna.

Með þessu hafi verið unnt að komast hjá markaðsröskun enda þurfi að gæta hagsmuna þeirra sem nú þegar hafa keypt hlut í bankanum.

Dreifingin nákvæmlega eins og við hefðum óskað

Bjarni segir það hafa tekist frábærlega að selja fyrstu hundrað milljarðana í Íslandsbanka á einu ári þannig að eignarhaldið sé dreift og eigendahópur fjölbreyttur.

„Við erum með fimmtán þúsund hluthafa, af þeim eru einungis fjórtán sem eru með meira en eitt prósent. Ríkissjóður á 42,5 prósent eftir. Við erum með almenning út af almenna útboðinu og fengum þá inn hornsteinsfjárfesta sem hafa haldið áfram.“

„Við fáum viðbótarfjárfestingu núna frá lífeyrissjóðum og við höfum fengið inn hæfa fjárfesta sem voru skertir mjög mikið síðast þannig að dreifingin er nákvæmlega eins og við hefðum helst óskað okkur. Að því leytinu til hefur þetta heppnast mjög vel og við höfum fengið mjög gott verð“

Bjarni bendir á að þeir fjárfestar sem keyptu fyrir lægri fjárhæðir í bankanum, líkt og sætt hefur gagnrýni en lægsta salan nam um milljón íslenskra króna, hafi óskað eftir því að fá keyptan stærri hlut í bankanum en þurft að sæta skerðingu í hlutfalli við takmarkað framboð.

Skoðun sem Bankasýslan hefur svarað með öðrum rökum

Í gær birtust viðmiðin sem Bankasýslan gaf út daginn sem útboðið fór fram og lögð voru fyrir fjármálaráðherra.

Deilt hefur verið um hvort setja hefði átt inngönguþröskuld í útboðið. „Annað hvort að úthluta engu til þeirra sem voru of litlir [ætluðu sér að kaupa smærri hluta] eða setja það sem fyrirfram skilyrði.“ Bjarni bendir á að hið síðarnefnda hafi aldrei komið fram sem tillaga við þinglega meðferð málsins. 

Bankasýslan hafi unnið eftir almennum viðmiðum þannig að allir stæðu jafnt að vígi sem uppfylli skilyrði fagfjárfesta.

„Sumir eru á því að ýta hefði átt smærri fjárfestum út af borðinu og það er þá bara skoðun sem Bankasýslan hefur svarað með öðrum rökum.“

Þurfum líka fjárfesta sem kaupa og selja

Það er slæmt, að hans mati, að vera eingöngu með fjárfesta sem kaupa til þess að eiga í langan tíma. „Við þurfum líka fjárfesta sem kaupa og selja til þess að viðhalda hreyfingu á markaði.“

Þá rifjar Bjarni það upp að Samkeppniseftirlitið hafi lýst yfir miklum áhyggjum af því að bankarnir færu allir í meirihlutaeigu lífeyrissjóðanna, enda væri ekki æskilegt að sjóðirnir væru eigendur fjármálafyrirtækja og ráðandi hluthafar í öllum viðskiptamönnum bankanna. 

Þetta telur Bjarni vera grundvallaratriði sem ekki hefur komist að í umfjöllun undanfarna daga.

Sigríður Benediktsdóttir.
Sigríður Benediktsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Út í hött að kalla þetta lögleysu

Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur við Yale-há­skóla og fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri fjár­mála­stöðug­leika­sviðs Seðlabanka Íslands, hefur haldið því fram að sölumeðferðin á hlut rík­is­ins í Íslands­banka hafi brotið í bága við  lög um sölumeðferð eign­ar­hluta í rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um

Bjarni telur út í hött að kalla útboðið lögleysu á þessum forsendum. Hann hefur óskað eftir úttekt Ríkisendurskoðunar en kveðst ekki sjálfur hafa komið auga á neitt sem gefi vísbendingu um annað en að útboðið hafi verið í samræmi við markmið sitt og sett lög. 

Hefði óskað þess að faðir hans tæki ekki þátt

Það kom Bjarna á óvart að faðir hans væri meðal fjárfesta en að öðru leyti kom listinn yfir fjárfesta, er tryggt höfðu sér hlut í bankanum eftir útboðið, ekki á óvart. 

„Ég hef verið í stjórnmálum í nítján ár og ég skil alveg að grunur um hagsmunatengsl og slíka hluti eru gríðarlega viðkvæm mál þannig að ég skil vel að spurt sé spurninga þegar svona kemur upp.“

Það eru þó til svör við þessum spurningum að sögn Bjarna. „Þau liggja í því að ég er ekki að úthluta í þessu útboði, það er búið að útfæra þetta í lögum þannig að þessar ákvarðanir eru allar teknar í armslengd frá mér.“

Hann játar þó að hann hefði óskað þess að faðir hans tæki ekki þátt í útboðinu. „Það hefði sparað mér nokkuð mörg símtöl.“

mbl.is

Bloggað um fréttina