Forstjóri bankasýslunnar ætlar ekki að víkja

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segist í samtali við mbl.is ekki ætla að segja af sér vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. 

Bjarni Jóns­son, þingmaður Vinstri grænna, sagði í pistli á Vísi að trú­verðug­leiki Banka­sýslu rík­is­ins hafi beðið hnekki vegna söl­unn­ar og að það myndi auðvelda stofn­unni að end­ur­heimta traust ef for­stjóri og stjórn henn­ar myndu víkja.

„Bjarni Jónsson hefur ekki leitað til mín til að afla upplýsinga um sölumeðferð eignarhluta Íslandsbanka,“ segir Jón Gunnar og bætir við að hann ætli ekki að víkja.

„Ég veit ekki á grundvelli hvaða upplýsinga hann er að kalla eftir því að ég víki.“

Inntur að því hvort að það séu innherjaviðskipti að starfsmenn Íslandsbanka hafi keypt hlutabréf segir hann það vera mál bankans, ekki mál bankasýslunnar.

Grunnforsendur að fá að selja þriðja aðila

Páll Magnús­son, fyrr­ver­andi þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði á Facebook-síðu sinni að kunningi hans hafi grætt millj­ón­ir eft­ir að hafa fengið sím­hring­ingu frá starfs­manni hjá ein­um af söluaðilum bréf­anna í ­bankanum, sem benti hon­um á að taka þátt í útboðinu.

„Ein af grunnreglum eignarréttar er að þér er heimilt að framselja eign þína til þriðja aðila,“ segir Jón Gunnar.

Hann segir það ekki rétt að rúmlega 400 hafi sótt um að kaupa hlutabréf en einungis 200 fengið heldur hafi verið um að ræða 430 pantanir frá 209 aðilum. 

„Það voru um 430 línur í áskriftarbók sem samanstóð af áskriftum frá 209 aðilum á lokaverði, af þeim fengu 207 úthlutun.“

Fjarmálaráðherra gaf forstjóra umboð til undirritunar

Inntur að því hvort fjármálaráðherra hafi samþykkt hverja og eina sölu líkt og kveðið er á um í lögum segir Jón Gunnar það einfaldlega ekki hægt. 

Jón Gunnar nefnir að í bréfi fjármálaráðherra, sem hann sendi til bankasýslunnar, kemur fram að forstjóra verði veitt umboð til að undirrita fyrir hönd ríkisins og gefa fyrirmæli um framsal hluta við uppgjör viðskiptanna svo unnt verði að ljúka sölunni. 

Jón Gunnar segir að orðalagið í lögunum geri ráð fyrir sölu til fárra aðila en í þessu tilviki voru 24 þúsund hluthafar og því hafi verið ómögulegt fyrir ráðherra að undirrita hvert og eitt.

Hann segir að bankasýslan fái lista sem starfsmenn úthluta í samræmi við ráðherra og fái heimild hjá honum til að klára málið. „Það er í algjöru samræmi við lögin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina