Gná lauk björgunaræfingu upp á eigin spýtur

TF-Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar
TF-Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar mbl.is/ Þóra Birna

Landhelgisgæsla Íslands og bandaríski sjóherinn áttu að framkvæma björgunaræfingu í morgun nærri Stapafelli á Reykjanesskaga, þar sem þyrlusveitir ásamt stjórnstöðvum yrðu í aðalhlutverki.

Æfingin fór vel af stað en þegar kom að því að þyrlusveitir voru kallaðar út tók þyrla bandaríska sjóhersins ekki á loft.

Viggó M. Sigurðsson, stýrimaður og sigmaður hjá Gæslunni, vann að því að skipuleggja æfinguna og var þetta fjórða tilraun til að láta hana fara fram.

Æfingin er einskonar próf þar sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar leysa verkefni líkt og um raunverulegt útkall væri að ræða. 

Viggó M. Sigurðsson á vettvangi æfingarinnar í morgun.
Viggó M. Sigurðsson á vettvangi æfingarinnar í morgun. mbl.is/ Þóra Birna

Vantaði aðstoð með þyrlu

Verkefnið í þetta skiptið var fólgið í því að bjarga fólki sem var innlyksa vegna eldgoss og fá til þess hjálp frá bandaríska sjóhernum.

„Klukkan átta í morgun verður hérna jarðskjálfti með hugsanlegu eldgosi. Okkar stjórnstöð kallar út okkar sveit og miðað við fengnar upplýsingar er óvissa um hvað það eru margir í hættu. Okkur vantar aðstoð með þyrlu því fólkið er innlyksa. Við leitum þá til varnamálasviðs innan Landhelgisgæslunnar. Þá fer í gang ferli að athuga hvort einhver sé í kring með tæki, við fáum svar að það sé skip frá bandaríska sjóhernum í grenndinni.“

Þannig snerist æfingin helst um aðdraganda og skipulagningu leitar og björgunar, og boðleiðir milli LHG og bandaríska sjóhersins.

Verður ekki önnur æfing í bráð

Þyrla bandaríska sjóhersins tók ekki á loft vegna veðurs, en rokið olli ókyrrum sjó. Skip sjóhersins var því of óstöðugt til þess að þyrlan gæti tekið á loft án þess að hætta yrði á að skipinu hvolfdi. 

TF-Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar lauk verkefninu upp á eigin spýtur og bjargaði hópnum.

Boðleiðirnar milli LHG og varnarmálasviðsins reyndust vel, sem og þær milli varnarmálasviðsins og stjórnarinnar sem heldur utan um tækin, að sögn Viggós. 

„Þessi þáttur sem tekst ekki er skipulagningin milli sjálfra eininganna sem koma að björguninni.“ Viggó sér ekki fram á að það muni nást að framkvæma aðra æfingu á því í bráð.

Aðgengi að stórum tækjum

Björgunaræfingin var í tengslum við varnaræfinguna Norður-Víking sem nú stendur yfir hér á landi.

Mikill áhugi er á góðri samvinnu milli ríkja innan Atlantshafsbandalagsins og var björgunaræfingin liður í því að fullkomna útfærslu á slíku samstarfi.

Aðspurður hver sé ávinningurinn fyrir hvorn aðila segir Viggó að LHG græði á því að eiga gott aðgengi að stórum og öflugum tækjum í eigu bandaríska hersins, líkt og þyrlunni sem hefði átt að taka þátt í þessari æfingu.

Þau tæki geta borið fleira fólk en íslenski búnaðurinn ræður við og kæmi sér til að mynda vel ef rýma þyrfti bæjarfélag vegna náttúruhamfara.

Ekki síst litlu hlutirnir sem Bandaríkjamenn vilja tileinka sér

„Það sem þeir fá frá okkur er að skilja starfsemi okkar og kynnast búnaðinum. Það eru ekki síst þessir litlu hlutir, fatnaður og annað sem okkur þykir svo sjálfsagt. Þeir eru að sjá, læra og finna það hvað þessi litlu atriði skipta miklu máli.“

Bandarísku hermennirnir hafa hingað til aðallega starfað í eyðimörkum á töluvert hlýrri slóðum og það eru því mikil viðbrigði fyrir þá að læra inn á hvernig best sé að athafna sig í íslenskri veðráttu. 

Bandarísku hermennirnir vilja læra af íslensku Landhelgisgæslunni hvernig best er …
Bandarísku hermennirnir vilja læra af íslensku Landhelgisgæslunni hvernig best er að búa og athafna sig í veðrum og vindum norrænna slóða. Skapti Hallgrímsson
mbl.is