Fær hálfa milljón eftir uppsögn sem sveitarstjóri

Horft yfir Hólmavíkurþorp.
Horft yfir Hólmavíkurþorp. mbl.is/Sigurður Bogi

Sveitarfélagið Strandabyggð var í síðustu viku sýknað af kröfu fyrrverandi sveitarstjóra um greiðslu biðlauna í þrjá mánuði, en honum var sagt upp í fyrra eftir ágreining við sveitarstjórnina. Hafði hann áður fengið greiddan þriggja mánaða uppsagnarfrest. Sveitarfélagið þarf hins vegar að greiða honum hálfa milljón í miskabætur vegna uppsagnarinnar, en Héraðsdómur Vestfjarða taldi sveitarfélagið hafa sagt honum upp án efnislegra skýringa.

Sveitarstjórinn fyrrverandi, Þorgeir Pálsson, sendi frá sér yfirlýsingu í fyrra í kjölfar uppsagnarinnar og sagði þá að uppsögnin hefði komið honum á óvart og að sveitarstjórnin væri að brjóta lög.

Ákvæðið sem deilt var um

Þorgeir var ráðinn sveitarstjóri Strandabyggðar árið 2018 til loka kjörtímabilsins, en ágreiningur um greiðslu biðlaunanna byggist á mismunandi skilningi á ákvæði í ráðningarsamningnum um uppsagnarfrest og gildistíma. Þar stendur „gagnkvæmur uppsagnarfrestur er 3 mánuðir. Uppsögn skal vera skrifleg og miðast við mánaðarmót. Samningur þessi öðlast gildi við undirskrift og gildir til 9. Júní 2022, hafi honum ekki verið sagt upp eða aðilar náð samkomulagi um breytingu fyrir þann tíma. Verði ekki um endurráðningu að ræða skal sveitarstjóri fá biðlaun í þrjá mánuði sem falla niður ef fráfarandi sveitarstjóri fer í nýtt starf.“

Taldi Þorgeir að samkvæmt þessu ætti hann rétt á biðlaunum til viðbótar við uppsagnarfrestinn í kjölfar uppsagnarinnar, en hann og fyrrverandi oddviti í sveitarfélaginu voru samsaga um að Þorgeir hefði upphaflega óskað eftir 6 mánaða uppsagnarfresti. Ákveðið hefði verið að koma til móts við hann heldur með þessu ákvæði sem næði til þess ef hann yrði ekki endurráðinn. Taldi oddvitinn skýrt að þetta ætti aðeins við ef ekki kæmi til endurráðningar eftir samningstímann.

Vísaði Þorgeir til þess að hann hafi meðal annars flutt búferlum með alla fjölskylduna og sagt upp tryggu starfi á höfuðborgarsvæðinu og því viljað hafa sex mánuði til að leita nýrrar vinnu ef til uppsagnar kæmi. Sagðist hann hafa látið þau sjónarmið uppi við samningagerðina.

Atvik eða upphlaup sem enginn vildi lýsa nánar

Bar bæði Þorgeiri og sveitarstjórnarmönnum saman um að á sveitarstjórnarfundi nokkru fyrir uppsögnina hafi orðið atvik eða upphlaup sem enginn vildi þó lýsa nánar. Í framhaldi af því hafi sveitarstjórnin rætt saman og orðið sammála um að leita skyldi eftir starfslokum við Þorgeir. Hafi hann hafnað starfslokasamningi og að segja sjálfur upp og var honum því í kjölfarið rétt skrifleg uppsögn.

Sagði Þorgeir fyrir dómi að hann skildi ekki af hverju honum hafi verið sagt upp. Hann hafi farið að sveitarstjórnarlögum og rækt starf sitt af heiðarleika. Taldi hann að samningurinn væri skýr um biðlaunin og að ef hann væri óskýr bæri að meta það sveitarfélaginu í óhag. Vísaði hann til þess að umrætt ákvæði hefði komið í samninginn vegna óskar hans um lengri uppsagnarfrest sem ekki var orðið við. Því hafi biðlaunin verið hugsuð sem viðauki við uppsagnarfrest.

Uppsögnin valdið álitshnekki að ástæðulausu

Gerði Þorgeir jafnframt kröfu um miskabætur frá sveitarfélaginu vegna uppsagnarinnar sem hann sagði ólögmæta. Byggði hann á að með uppsögninni hefði verið vegið að æru hans og að ekki hafi komið fram í fundarboði í umboði hverra fundurinn hafi verið boðaður eða honum kynnt samþykkt sveitarstjórnar um að ganga frá starfslokum hans.

Benti hann á að sér hafi verið gefnir þrír dagar til að skila af sér gögnum, en einn þeirra daga hafi verið sumardagurinn fyrsti og þar með frídagur. Talnalás inn á skrifstofuna hafi jafnframt verið breytt og honum því gert erfitt að skila rafrænum gögnum eins og kveðið hafi verið á um í uppsagnarbréfi. Taldi hann þessa framgöngu lið í því að draga upp sem svartasta mynd af gjörðum hans. Hann hafi talið sig knúinn að birta yfirlýsingu vegna málsins og að uppsögnin hafi verið til þess fallin að valda honum álitshnekki að ástæðulausu. Fór hann fram á 1,5 milljónir í miskabætur.

Starf sveitarstjóra öðruvísi en önnur störf

Sveitarfélagið taldi uppsögnina hins vegar lögmæta og í samræmi við ráðningarsamninginn auk þess sem uppgjörið hafi verið í samræmi við samninginn.Taldi sveitarfélagið að uppsagnarfresturinn og biðlaunin væru tvenns konar og eðlisólík tilvik sem gildi við mismunandi aðstæður. Ráðningasamningurinn sé skýr um að rétturinn eigi við þegar ekki sé um endurráðningu að ræða, en ekki ef til uppsagnar komi. Uppsögnin hafi komið til þar sem málsaðilar höfðu ekki lengur sömu sýn á málefni sveitarfélagsins og ekki hafi lengur ríkt traust á milli þeirra. Taldi sveitarfélagið að þar sem um pólitískt trúnaðarstarf væri að ræða sé alltaf mögulegt að staða komi upp þar sem sveitarstjóra sé sagt upp slíkum ástæðum.

Sveitarfélagið hafnaði því að í uppsögninni hafi falist ólögmæt meingerð í garð Þorgeirs og að eðlilegt hafi verið að fundað hafi verið með skömmum fyrirvara til að ræða uppsögnina. Þá hafi sveitarstjóri og sveitarstjórn verið með skrifstofu í sama húsnæði og fundur hans með vinnuveitenda sínum geti ekki talist viðurhlutamikil fyrir hann.

Sagði skrifstofustjóri sveitarfélagsins að Þorgeir hafi jafnframt skilað öllum gögnum innan umrædds frests og að talnalásnum hafi ekki verið breytt fyrr en eftir það.

Biðlaunaákvæðið ekki túlkað Þorgeiri í hag

Í niðurstöðu dómsins segir að ljóst sé að sveitarstjórnin hafi hafnað kröfu Þorgeirs um sex mánaða uppsagnarfrest og því hafi ákvæðið um biðlaunin verið sett inn. Túlka verði ákvæðið út frá þessari höfnun og að væntingar Þorgeirs hafi ekki verið réttmætar. Þá taldi dómstóllinn ekki að túlka ætti óskýrleika honum í hag.

Um lögmæti uppsagnarinnar segir að ekki liggi fyrir fundargerðir af óformlegu fundunum tveimur þar sem ákveðið var að fara í uppsögnina, en hins vegar sé til staðar fundargerð frá því 10 dögum eftir uppsögnina þar sem sveitarstjórnin staðfestir að fara þessa leið.

Sagt upp án efnislegra skýringa

Dómurinn tekur undir með því að starfs sveitarstjóra sé um margt öðruvísi en önnur opinber störf. Hér liggi ekki fyrir hvað deilt hafi verið um, en hins vegar liggi fyrir að Þorgeir hafi óskað eftir að ræða samstarf sitt við hana áður en til uppsagnarinnar kom án þess að neinn hafi svarað þvi boði. Ekki hafi komið fram hver pólitíski ágreiningurinn sé sem hafi komið upp, en gögn málsins bendi til þess að ástæðan hafi verið að Þorgeir hafi ekki sinnt starfi sínu sem skyldi.

Telur dómurinn að Þorgeiri hafi verið sagt upp án efnislegra skýringa og án þess að leitað hafi verið eftir því að ná sátt um það hvernig hann rækti starfa sinn. Því sé skilyrði fyrir miskabótum uppfyllt og telur dómurinn rétt að miða við hálfa milljón í miskabætur.

Hvorum aðila málsins var svo gert að bera sinn hluta af kostnaði málarekstursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert