Fordæmir ákvörðun stjórnar Eflingar

Drífa Snædal forseti ASÍ að fundi loknum í dag.
Drífa Snædal forseti ASÍ að fundi loknum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Drífa Snædal, forseti ASÍ, fordæmir ákvörðun stjórnar Eflingar að samþykkja tillögu sem lýtur að því að segja upp öllu starfsfólkinu á skrifstofu félagsins. Enn er ekki búið að afhenda starfsfólkinu uppsagnarbréf og vonar Drífa að hægt verði að snúa þessari ákvörðun við áður en hún raungerist. 

Drífa var nýstigin af fundi með starfsfólki Eflingar þegar blaðamaður náði af henni tali. Starfsmenn vildu ekki tjá sig en einn sagði þó að um „alvöru“ fund hefði verið að ræða.

„Ég held að ég sé bara í ákveðnu áfalli eins og allir aðrir. Ég hélt ekki að ég ætti eftir að upplifa það að verkalýðshreyfing myndi fara í það sem mér sýnist tilefnislausar hópuppsagnir.

Þetta er slæmt gagnvart starfsfólkinu, afkomu og atvinnuöryggi, þetta er slæmt gagnvart félagsmönnum í Eflingu vegna þess að þetta þýðir skerta þjónustu og þetta er slæmt fyrir verkalýðsbaráttuna,“ segir Drífa við mbl.is.

Reiknar með samráði 

Hún segir að verið sé að meta stöðuna, en að lög séu í gildi um hópuppsagnir þar sem m.a. sé kveðið á um að það eigi að leita allra leiða til að minnka skaðann eins og mögulegt er og að samráð þurfi að vera við trúnaðarmenn.

„Ég reikna með að það samráð sé í gangi.“

Spurð hvort þessi aðgerð gangi of langt, kveðst Drífa fordæma alla atvinnurekendur sem myndu grípa til slíkra aðgerða, þar með talið stjórn Eflingar.

Hvetur stjórnina að endurskoða

Drífa hefur ekki átt samtal við Sólveigu frá því að fréttir um uppsagnirnar bárust í gærkvöldi en hún gerir ráð fyrir að það komi að því. Myndi hún þá hvetja til þess að þessari ákvörðun verði snúið við en starfsfólk hefur ekki enn fengið uppsagnarbréf og ætti því að enn að vera hægt að koma í veg fyrir hópuppsögnina.

„Ég hvet stjórn Eflingar að endurskoða þessa ákvörðun,“ segir Drífa að lokum.

mbl.is