Er óskynsamleg hegðun refsiverð?

Hjalti Már Björnsson bráðalæknir bráðamóttaka Landspítali Landspítala
Hjalti Már Björnsson bráðalæknir bráðamóttaka Landspítali Landspítala mbl.is/Kristinn Magnússon

Talsvert kom á óvart þegar farið var yfir slysatölur síðasta árs hversu mörg slys urðu við akstur rafhlaupahjóla, eða 16,8%. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra setti á stofn starfshóp til að skoða þessi mál og hefur hópurinn lagt til að það yrði refsivert að nota smáfarartæki eins og rafhlaupahjól ef magn áfengis er meira en 0.5 prómill í blóði. Einnig er tekið á fleiri þáttum eins og að banna notkun rafhlaupahjólanna undir 13 ára aldri, hjálmskylda fyrir undir 16 ára og að setja búnað í hjólin sem tryggi að ekki sé hægt að fara hraðar en á 25 km hraða á klukkustund. Enn er verið að vinna að málinu og búist við að tillögur liggi fyrir fullmótaðar 1. júní nk.

„Mín skoðun á þessu er að núverandi ofnotkun á of stórum bílum til stuttra ferðalaga innanbæjar er gjörsamlega glórulaus og það verður að breyta því. Þar eru rafskútur og önnur smærri umhverfisvænni farartæki mjög góð leið til að vinda ofan af þeirri ofnotkun,“ segir Hjalti Már Björnsson bráðalæknir, sem er mikill áhugamaður um umhverfisvænar samgöngur.

Rafhlaupahjól í miðbænum.
Rafhlaupahjól í miðbænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margt skynsamlegt í tillögunum

„Í nýbirtum tillögum frá Starfshópi ráðuneytisins er ýmislegt skynsamlegt. Ég held það sé ekki skynsamlegt að fara hraðar en á 25 km hraða og það hljómar vel að takmarka hraða þessara tækja. En á sama tíma vil ég benda á hversu sturlað það er að það sé leyfilegt að aka á tveggja tonn bíl sem getur farið langt yfir leyfilegum hámarkshraða. Þannig að þá finnst mér eðlilegt að það sé komið á læsingum í alla bíla þannig að það sé ekki hægt að keyra þá hraðar en á þeim hraða sem er hámarkshraði á Íslandi,“ segir Hjalti Már.

Þarf sambærilega hraðalæsingu í bíla?

„Við erum komin með fordæmi núna að það þurfi að hafa vit fyrir fólki svo það keyri ekki óhóflega hratt á rafskútum. Ég vil samt minna á það að ef einhver fer of hratt á rafskútu, þá er afar ólíklegt að viðkomandi setji aðra en sjálfan sig í hættu. En ef einhver keyrir of hratt á bíl skapar hann stórkostlega lífshættu fyrir aðra vegfarendur. Í ljósi þess að umferðarslys eru óhugnanlegur skaðvaldur í okkar samfélagi finnst mér mjög brýnt að það sé komið sambærilegri læsingu í bílana.“

40% allra slysa þegar áfengi er notað

Hjalti Már segir það afar sjaldgæft að aðrir en notendur slasist á rafhlaupahjólum. „En það er ekki hægt að horfa fram hjá því að í uppgjöri frá Bráðamóttöku, sem við birtum í Læknablaðinu á síðasta ári, reyndust um 40% allra slysa verða þar sem fólk er undir áhrifum áfengis. Ég hef hins vegar ákveðnar efasemdir um það að gera það að refsiverðum glæp að haga sér óskynsamlega undir áhrifum áfengis. Ég mæli ekki heldur með því að fólk klifri upp stiga, fari út að hlaupa eða stundi íþróttir undir áhrifum áfengis, en slíkt er ekki refsivert athæfi. Hér er verið að gera það að refsiverðu athæfi að fara á rafskútu eftir að hafa fengið sér tvo bjóra. Ég hef meiri trú á fræðslu til almennings um það.“

Rafhlaupahjól.
Rafhlaupahjól. mbl.is/Hari

Betra fyrir börn að nota venjuleg reiðhjól

Hjalti Már segir samt margt skynsamlegt í þessum fyrstu tillögum starfshópsins. „Ég er sammála því að börn yngri en 13 ára hafi ekki nægan hreyfiþroska til að nota rafskútur og ég mæli ekki með því að foreldrar séu að kaupa rafknúin farartæki undir börn sín  því það gerir ekkert annað en að minnka líkamsrækt þeirra og auka slysatíðni. Það er miklu hollara, hættuminna og umhverfisvænna að þau noti venjuleg reiðhjól knúin af þeirra eigin afli.“

Flest slysin vegna lélegra aðstæðna

Hann segir það líka skynsamlegt að hægt sé að nota rafhlaupahjólin innan um aðra umferð á götum þar sem er 30 km hámarkshraði. „En það hefði mátt vera meiri áhersla á því að að byggja upp innviði borgarinnar í samræmi við þennan umhverfisvæna samgöngumáta. Við sjáum það í uppgjörum að umtalsverður hluti slysa á rafskútum verður vegna þess að það eru ójöfnur á stígum, það eru kantar eða annað í umhverfinu sem veldur slysinu,“ segir hann.

Helmingur borgarinnar fer undir bíla

„Þegar borgin var sem verst var um helmingur flatarmáls höfuðborgarsvæðisins, sem fór undir vegi, bílastæði og einkabílinn. Þetta er að mínu mati allt of mikið. Það er afar brýnt með aukinni fjölbreytni í öðrum samgöngumáta að þá sé haldið áfram með þá öflugu þróun sem hefur verið í borginni síðustu ár að hanna borgina með þessa nýju samgöngumáta í huga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert