Úttekt Ríkisendurskoðunar hafin

Ríkisendurskoðun hefur hafið úttekt á sölunni á Íslandsbanka
Ríkisendurskoðun hefur hafið úttekt á sölunni á Íslandsbanka mbl.is/Árni Sæberg

Ríkisendurskoðun hefur hafið úttekt á útboði og sölunni á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka samkvæmt beiðni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Úttektin snýr að framkvæmd og hlutverki ríkisins og stofanna þess að sölunni. Þetta staðfestir Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi í samtali við mbl.is.

„Vð erum sjálfstæð stofnun sem afmarkar okkar úttektir sjálf, við ætlum okkur að gera þetta hægt og örugglega og horfum á júnímánuð þegar kemur að því að klára úttektina,“ segir Guðmundur Björgvin og tekur fram að ferlið geti bæði tekið skemmri eða lengri tíma. „Við erum þegar byrjuð í okkar vinnu og erum komin með töluvert af gögnum.“

Í tilkynningu frá Ríkisendurkoðun frá 8. apríl kemur fram:

„Áætlun um afmörkun og framkvæmd úttektarinnar liggur ekki fyrir en slík áætlun mun verða endurskoðuð eftir því sem úttektinni vindur fram. Í því sambandi er ítrekað að skv. 3. mgr. 1. gr. framangreindra laga er ríkisendurskoðandi sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og ákveður sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu samkvæmt lögunum“

mbl.is