Skýra afstöðu sína í pósti til félagsmanna

Sólveig Anna segir uppsagnirnar óhjákvæmilegar.
Sólveig Anna segir uppsagnirnar óhjákvæmilegar. Samsett mynd/mbl.is

Stjórn Eflingar hafnar því að gripið hafi verið til hópuppsagna til að lækka laun starfsfólks en kostnaðurinn við uppsagnirnar getur numið allt að 75 milljónum króna. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður félagsins er ekki með ráðningarsamning og nær hópuppsögnin því ekki til hennar.

Þetta kemur fram á nýrri síðu á vefsíðu Eflingar þar sem spurningum um skipulagsbreytingar Sólveigar Önnu er svarað. Félagsmönnum Eflingar var sendur póstur í morgun þar sem þeim var tilkynnt um þessa nýju síðu og þau hvött til að kynna sér efni hennar.

Í síðustu viku sagði stjórn Eflingar öllu starfsfólki félagsins upp á grundvelli skipulagsbreytinga. Aðgerðirnar hafa verið harðlega gagnrýndar innan verkalýðshreyfingarinnar.

Umræðan sé vanstillt

Í póstinum sem félagsmönnum var sendur í dag kemur fram að Sólveigu Önnu hafi fundist umræðan mjög vanstillt og byggð á röngum eða ófullkomnum upplýsingum.

Hér má sjá skjáskot af póstinum sem félagsmenn Eflingar fengu …
Hér má sjá skjáskot af póstinum sem félagsmenn Eflingar fengu sendan í dag. Ljósmynd/Skjáskot

Í einu svaranna á nýju síðunni kemur fram að breytingarnar séu ekki til þess fallnar að bola einstaklingum úr starfi sem stjórninni líkar ekki við.

„Breytingarnar eru gerðar til að efla starfsemi félagsins og uppfæra úrelt og gölluð ráðningarkjör. Ekki er gert upp á milli starfsmanna að neinu leyti og sama gildir um alla: ráðningarsamningum allra er sagt upp og allir starfsmenn hvattir til að sækja um. Ráðningarstofa mun annast nýráðningar í gegnum faglegt ferli þar sem hæfni umsækjenda ræður för.“

Agnieszka Ewa Ziól­kowska, varaformaður Eflingar, fékk uppsagnarbréf, líkt og allir aðrir starfsmenn félagsins, en starfið hennar hefur ekki verið auglýst laust. Það hefur þó ekki áhrif á félagslega skipun hennar í stöðu varaformanns.

Agnieszka hefur spurt hvort Sólveig Anna muni segja sér sjálfri upp. Samkvæmt upplýsingum á nýju síðunni er Sólveig Anna ekki með ráðningasamning við Eflingu.

„Núverandi formaður Eflingar var einnig með ráðningarsamning en sagði upp þáverandi ráðningarsamningi sínum við félagið í nóvember síðastliðnum og hefur ekki undirritað nýjan samning síðan þá. Ef formaður hefði ekki þegar sagt upp ráðningarsamningi sínum þá hefði hópuppsögnin einnig náð til hennar ráðningarsamnings.“

Íslenskukunnátta mikilvæg

Líkt og mbl.is hefur greint frá hafa ný störf hjá Eflingu verið auglýst laus til umsóknar.

Það vakti athygli að mörg þeirra kröfðust góðrar færni í íslensku. Stjórn Eflingar segist krefjast þess til að allir starfsmenn geti jafnt aðstoðað félagsmenn á bæði íslensku og ensku.

Í samtali við mbl.is á laugardaginn sagði Ólöf Helga Ad­olfs­dótt­ir, rit­ari Efl­ing­ar og fyrr­ver­andi vara­formaður fé­lags­ins, að íslensku­kunn­átta starfs­fólk Eflingar væri ólík, því kynnu þessi hæfniskilyrði að verið hindrandi fyrir starfsfólk sem hugðist sækja um starfið sitt á nýjan leik, líkt og Sólveig Anna hefur hvatt til.

„Kröfum um tungumálafærni er breytt þannig að krafa er almennt gerð um bæði íslensku- og enskukunnáttu. Það er gert til að allir starfsmenn geti jöfnum höndum þjónustað félagsmenn á þessum tveimur tungumálum. Þá er kunnátta í fleiri tungumálum nefnd sem kostur í hæfniskröfum.“

Uppsagnirnar ekki líkar öðrum

Stjórnin segir að rétt og löglega hafi verið staðið uppsögnunum. Hún telur þessar uppsagnir ekki líkjast þeim sem félagið, undir stjórn Sólveigar Önnu, hefur gagnrýnt.

„Efling hefur gagnrýnt hópuppsagnir atvinnurekenda í tilvikum þar sem þær voru framkvæmdar til að koma sér hjá því að standa við kjarasamningsbundnar launahækkanir hjá láglaunafólki og þar sem uppgefnar ástæður breytinga voru tylliástæður. Hvorugt á við í tilviki þessara hópuppsagna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert