Átti að koma í veg fyrir pólitíska ríkisbanka

Gylfi Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður bankaráðs …
Gylfi Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gylfi Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, segir í samtali við mbl.is að Bankasýsla ríkisins, sem stofnuð var árið 2010, hafi meðal annars átt að koma í veg fyrir pólitíska ríkisbanka líkt og þekktist á 20. öldinni.

Í dag tilkynnti ríkisstjórnin að ákveðið hefði verið að leggja það til við Alþingi að Banka­sýslan yrði lögð niður. 

Inntur að því hvaða hlutverki Bankasýslan eigi að gegna segir Gylfi hana eiga að vera fagleg gagnsæ og óháða stofnun sem sér um eign­ar­hluta rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um.

„Bankasýslan var stofnuð eftir hrun þegar ríkið fékk í fangið fjármálafyrirtæki, sem hafði ekki endilega verið stefnt að því að ríkið eignaðist. Það var ákveðið að gera þetta svona til þess að bönkunum yrði ekki stýrt beint af stjórnmálamönnunum, þ.e.a.s. ráðuneytum eða þinginu.“

Pólitískt kjörin bankaráð og bankastjórar

Gylfi segir að Bankasýslan hafi meðal annars verið sett á laggirnar þar sem að ríkisbankar þekktust megnið af 20. öldinni.

„Þeim hafði verið stýrt mjög pólitískt, með pólitískt kjörnum bankaráðum og jafnvel bankastjórum. Hugmyndin var auðvitað að gera þetta öðruvísi núna.“

Hann segir að í grófum dráttum sé hægt að fullyrða að það hafi tekist.

„Þó að öll spjót standa að Bankasýslunni núna þá er ósanngjarnt annað en að viðurkenna að það hefur tekist, þennan rúma áratug, að vera með þessa „armslengd“ milli stjórnmálamannanna annars vegar og faglærðra stjórnenda bankanna hins vegar.“

Hlutverk fjármálaráðherra talsvert

Inntur að því hvaða hlutverki fjármálaráðherra gegni í sölunni segir Gylfi að bankasýslan heyri undir hann.

„Bankasýslan kemur með tillögur til ráðherra um það hvernig eigi að standa að þessari sölu. Hann þarf að samþykkja þær og útfærsluna. Þannig að hans hlutverk er töluvert, án þess að ég reyni að leggja mat á hvernig hann hefur valdið því hlutverki.“

Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar sagði að inn­leitt verði nýtt fyr­ir­komu­lag í stað Bankasýslunnar. Frum­varp þessa efn­is verður lagt fyr­ir Alþingi svo fljótt sem auðið er.

Þar verður lögð áhersla á rík­ari aðkomu Alþing­is og að styrk­ari stoðum verði skotið und­ir að tryggja gagn­sæi, jafn­ræði, lýðræðis­lega aðkomu þings­ins og upp­lýs­inga­gjöf til al­menn­ings.

Gylfi segir að hið nýja fyrirkomulag gæti falið í sér gagnsætt og faglegt bankaráð. 

„En ekki bara valið af einum ráðherra eða kosið af Alþingi. Ef Alþingi kysi bankaráðið þá ertu komin með minnihluta og meirihluta í ráðinu og þar að leiðandi kannski frekar skrýtið kerfi til að reka viðskiptabanka,“ segir Gylfi en bætir þó við að hann viti ekki hvað felist í útfærslu ríkistjórnarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert