Félagsmenn Eflingar knýja fram félagsfund

493 félagsmenn hafa skrifað undir.
493 félagsmenn hafa skrifað undir. Samsett mynd/mbl.is

Hátt í 500 félagsmenn Eflingar hafa skilað inn undirskriftum til félagsins til að knýja fram félagsfund. Fundarefni er ákvörðun stjórnar Eflingar að segja upp öllu starfsfólki félagsins. 

Þetta staðfestir Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, í samtali við mbl.is. 

Í pósti sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendi félagsmönnum í kvöld segir að stjórn félagsins muni koma saman til að taka ákvörðun um boðun og tímasetningu fundarins.

„Mér er ljúft og skylt að verða við þeirri ósk,“ segir Sólveig Anna.

Féalagsmönnum ekki sama um vegferð félagsins

Anna Sigurlína Tómasdóttir, trúnaðarmaður hjá Kjörís, sendi fjölmiðlum tilkynningu þess efnis í kvöld að 493 félagsmenn hefðu skrifað undir.

Samkvæmt lögum Eflingar er félaginu skylt að halda félagsfund ef minnst 300 félagsmenn krefjast þess.

„Fjöldi félagsfólks sem flest er verkafólk kom að því að safna undirskriftunum og undirtektir voru almennt góðar. Enda hinum almenna félagsmanni félagsins ekki sama um vegferð og afdrif síns félags,“ segir í tilkynningunni.

„Nauðsynlegt er að fram fari umræða innan félagsins meðal félagsmanna um hversu hættulegt fordæmi stéttarfélagið setur með beitingu hópuppsagnar með þessum hætti.“

Dregur úr trúverðugleika félagsins

Í tilkynningunni segir enn fremur að hópuppsagnirnar dragi úr getu félagsins til að standa vörð um hagsmuni félagsfólks.

„Að beita hópuppsögnum með þessum hætti dregur alvarlega úr trúverðugleika stéttarfélagsins og getu þess til að standa vörð um hagsmuni félagsfólks.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is