Mjög litlar líkur á að fólk smitist

Heiðagæsir.
Heiðagæsir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir eru mjög litlar líkur á því að fólki geti smitast af fuglaflensunni sem fannst í þremur fuglum hérlendis á dögunum en grannt er fylgst með bæði hér heima og erlendis að sögn Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknis í alífuglasjúkdómum, hjá Matvælastofnun. 

Almenningur veltir fyrir sér smithættu fyrir fólk og gæludýr. Margir hafa einnig áhyggjur af neyslu afurða þegar fuglaflensa skýtur upp kollinum. 

„Víða í heiminum er mjög stíft fylgst með hversu smithæfar þessar veirur eru fyrir spendýr og fyrir fólk. Enn sem komið er þá eru mjög litlar líkur á að fólk geti smitast. Líkurnar á að smitast af neyslu afurða eru nánast engar. Á alífuglabúum þarf fólk að gæta að eðlilegum smitvörnum eins og að passa upp á handþvott. 

Almenningur þarf því ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu en við minnum fólk á að taka ekki upp dauða fugla með berum höndum. Hægt er að taka þá upp með plastpoka ef um er að ræða spörfugl heima við og setja í heimilissorp. Ef um er að ræða annan villtan fugl þá er best að láta hræið vera og láta okkur [hjá Matvælastofnun] vita.

Við leggjum áherslu á að allir sem halda alífugla geri sér grein fyrir smithættu og auglýsing frá ráðherra gildir þar sem tilkynnt var um aukið viðbúnaðarstig. Krafan er að halda fuglunum innandyra, eða undir þaki þar sem villtir fuglar hafa ekki aðgang að.“

Ábendingar til skoðunar

Eins og fjallað hefur verið um þá tilkynnti Matvælastofnun um að fuglaflensa hafi verið staðfest í þrem­ur villt­um fugl­um á land­inu. Þar var um að ræða heiðagæs við Horna­fjörð, hrafn á Skeiðum í Árnes­sýslu og súlu rétt við Stranda­kirkju við Suðurstranda­veg. 

„Eins og er þá erum við með greiningar í þessum þremur dauðu fuglum ásamt einum hópi af bakgarðshænum sem tilkynnt var um á föstudaginn. Okkur hafa ekki borist fleiri tilkynningar þar sem grunur leikur á veikindum í alífuglum. Þessa dagana vinnum við með ábendingar sem við höfum fengið frá almenningi sem við erum þakklát fyrir. Við erum að skoða þessa staði og vega og meta hvar við tökum sýni. Verður það verkefni okkar næstu daga.

Um leið erum við að bíða eftir frekari greiningu á þessum veirum sem hafa greinst núna á rannsóknarstofunni á Keldum. Við fáum þær upplýsingar annað hvort fyrir helgi eða snemma í næstu viku. Þá vitum hvaða gerð af fuglaflensuveiru er um að ræða og hvort hún sé skæð sem er reyndar afar líklegt,“ segir Brigitte en fuglaflensutilfelli hafa komið upp á slóðum þar sem farfuglar sem eru hérlendis á sumrin hafa vetursetu. 

„Við vitum að skæð fuglaflensa er víða útbreidd í villtum fuglum og alífuglum í Evrópu. Við vitum einnig að þetta er á slóðum þar sem okkar fuglar hafa vetrarstöðu. Samkvæmt rannsóknum í austurhluta Kanada hafa fuglaflensuveirur borist í fyrrasumar eða fyrrahaust um Ísland til Kanada. Veirurnar hafa líklega verið hérna í fyrra en við bara fundum þær ekki. Þótt við séum ekki með greiningu á meinvirkni frá rannsóknarstofum þá er óhætt að ganga út frá því að um skæða fuglaflensu sé að ræða af gerðinni H5. Við vinnum með þær forsendur í dag og vörum því alla alífuglaeigendur við og biðjum þá um að vera á varðbergi. Útbreiðslan virðist vera þannig að smithætta fyrir alífugla sé töluverð,“ segir Brigitte Brugger í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert