Flugvélin hífð upp á föstudag

Viðbragðsaðilar að störfum við Þingvallavatn í febrúar.
Viðbragðsaðilar að störfum við Þingvallavatn í febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefnt er að því að hífa flugvélina TF-ABB upp úr Þingvallavatni á föstudaginn. Undirbúningur vegna verkefnisins hefur staðið yfir frá því ís hvarf af vatninu.

Gert er ráð fyrir að unnið verði að uppsetningu vinnubúða vegna björgunaraðgerða á morgun, fimmtudag, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Flug­vél­in, sem fórst í byrj­un fe­brú­ar með fjóra karl­menn um borð, ligg­ur á 48 metra dýpi í Ölfu­s­vatns­vík.

Setja þarf upp tjaldbúðir með aðstöðu fyrir björgunarmenn og öryggisbúnað vegna köfunar. Einnig verður Björninn, fjarskiptabíll Landsbjargar, á vettvangi til að tryggja fjarskipti. Jafnframt verða prammar nýttir sem aðstaða úti á vatninu og einnig til að hífa flugvélina af botni Þingvallavatns og færa að landi, að því er segir í tilkynningunni.

Gert er ráð fyrir að aðgerðir á svæðinu hefjist með sjósetningu og prófunum á tækjabúnaði kl. 9 á föstudaginn.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur ákveðið að banna yfirflug allra loftfara um svæðið frá kl. 8 í föstudagsmorgun og þar til aðgerðum er lokið. Fyrir liggur að nota þarf dróna lögreglu við aðgerðina og eins mun þyrla Landhelgisgæslunnar vera í viðbragðsstöðu til flugs á vettvang ef þörf krefur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert