Harma hópuppsögnina og segja hana ósvífna

Verk Vest segir ákvörðun stjórnar Eflingar ósvífna.
Verk Vest segir ákvörðun stjórnar Eflingar ósvífna. Samsett mynd/mbl.is

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga harmar þá ákvörðun stjórnar Eflingar að segja upp öllu starfsfólki á skrifstofu félagsins. Slíkar aðgerðir eigi aðeins að vera algjört neyðarúrræði til að hagræða í rekstri en ekki til að lækka laun. Þetta kemur fram í pistli Bergvins Eyþórssonar, varaformanns Verkalýðsfélags Vestfirðinga, á vef félagsins. Ákvörðunin er sögð ósvífin.

„Stéttarfélögum ber skylda til að ganga fram með góðu fordæmi og þannig tryggja að réttindi vinnandi fólks sé ofar öðrum hagsmunum. Velferð starfsfólks á að vera í fyrsta sæti,“ segir í pistlinum.

Þar kemur jafnframt fram að stjórn Verk Vest taki undir með ASÍ-Ung um ósiðlega aðför að grundvallar réttindum vinnandi fólks og lýsi yfir stuðningi við framgöngu forseta ASÍ sem komið hafi starfsfólki Eflingar til varnar.

Þá furðar stjórn félagsins sig á framgöngu Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, og Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, og telur þá hafa brugðist grundvallar skyldum sínum að veita starfsfólkinu stuðning og skjól. Vilhjálmur birti hins vegar í dag pistil á vef Verkalýðsfélags Akraness þar sem fram kemur að hann telji hópuppsögnina vera mistök og hann styðji ekki ákvörðun meirihluta stjórnar Eflingar.

mbl.is